FréttirSkrá á póstlista

27.08.2012

Stóraukin frystigeta og aukin hráefnisgæði

Frystitogarinn Örfirisey RE hefur verið að makrílveiðum í sumar eftir að lokið var við mjög umfangsmiklar breytingar og endurbætur á vinnslu-, frysti- og kælibúnaði skipsins. Verkið hófst 19. mars sl. og tók það um þrjá og hálfan mánuð. Farið var í fyrstu veiðiferðina þann 7. júlí sl. og að sögn Trausta Egilssonar skipstjóra lofa breytingarnar mjög góðu.

,,Það var skipt um allan vinnslubúnað á millidekkinu, nýjum frystibúnaði, sem notar ammoníak sem frystimiðil í stað freons, komið fyrir auk krapavélar með forkæli fyrir sjó. Það er talað um að frystigetan eigi að aukast um allt að rúmlega 50% við þessa breytingu en þar sem við höfum bara verið á makrílveiðum í sumar og heilfryst makrílinn þá hefur enn ekki reynt á hver aukningin er í t.d. flakafrystingunni. Aukningin í heilfrystingunni er þó veruleg. Í fyrra vorum við að frysta um 35 til 37 tonn á sólarhring en nú frystum við hæglega 60 til 65 tonn á sólarhring,“ segir Trausti en að hans sögn verður gaman að fylgjast með framvindu mála þegar fyrst fer að reyna á nýja vinnslubúnaðinn fyrir alvöru.

,Markmiðið með þessari breytingu er að auka afkastagetuna og bæta gæði afurðanna. Við sjáum nú þegar að tilkoma krapavélarinnar og forkælisins hefur gríðarlega möguleika í för með sér. Nú geymist allur afli, sem um borð kemur, og nýtist til framleiðslu á hágæðaafurðum óháð frystigetunni. Hröð kæling skiptir sköpum í því sambandi,“ segir Trausti Egilsson.

Er við ræddum við Trausta var hann með skipið að makrílveiðum á Þórsbanka fyrir austan land en þar til fyrir skömmu héldu togararnir sig vestan við landið. Aflabrögðin hafa verið upp og ofan síðustu dagana og að sögn Trausta fæst besti aflinn nú á nóttunni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir