FréttirSkrá á póstlista

23.08.2012

Styttist í að makrílkvótinn náist

Í morgun áttu uppsjávarveiðiskip HB Granda óveidd um 2.000 tonn af makríl. Makrílveiðin tregaðist töluvert um síðustu helgi en með töluverðri fyrirhöfn hefur verið hægt að ná þokkalegum afla síðustu daga. Versni veiðin ekki að nýju ættu ekki að líða mjög margir dagar þar til að skip HB Granda geta snúið sér af síldveiðum fyrir alvöru en nú eru óveidd um 11.500 tonn af aflamarki félagsins í norsk-íslenskri síld á vertíðinni.

Er rætt var við Albert Sveinsson, skipstjóra á Faxa RE, nú um miðjan dag var nýbúið að kasta flotttrollinu og þriðja hol veiðiferðarinnar þar með hafið. Um 230 tonn af makríl og síld fengust í nótt sem leið og upp úr hádeginu var lokið við um 100 tonna makrílhol. Skipið er að veiðum í Litladjúpi en þar er mikill fjöldi skipa að veiðum og í leit að makríl og segir Albert aðstæður vera frekar erfiðar.

,,Togararnir eru allir komnir hingað eftir að makrílveiðin datt niður fyrir vestan landið og að uppsjávarveiðiskipunum meðtöldum eru hér nú örugglega ekki færri en 20 skip en reyndar á nokkuð stóru svæði. Það hefur töluverður tími farið í að leita að makríl í veiðanlegu magni, blettirnir eru litlir og menn hafa verið að kasta á lóðningar án þess að fá nokkurn afla. Makríllinn er örugglega í einhverjum mæli farinn að leita út úr landhelginni og menn keppast því við að ná kvótunum áður en það verður um seinan,“ segir Albert en samkvæmt upplýsingum hans eru fá skip á síldveiðum um þessar mundir. Síld veiðist reyndar sem meðafli á makrílveiðunum og eins verða menn að gera ráð fyrir því að makríll veiðist að einhverju sem meðafli þegar aukinn þungi færist í síldveiðarnar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir