FréttirSkrá á póstlista

20.08.2012

Makríllinn farinn að hrygna í íslenskri lögsögu

Fyrir nokkru lauk rannsóknaleiðangri Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna á útbreiðslu makríls og magni á hafsvæðinu umhverfis Ísland og Færeyjar allt austur að Noregsströndum. Fyrstu niðurstöður íslenska hluta leiðangursins sýna að magn makríls innan íslenskrar lögsögu er svipað og undanfarin ár en í fyrra bentu niðurstöður sambærilegs leiðangurs til þess að um 1,1 milljón tonna af makríl væri innan íslenskrar landhelgi. Það, sem vekur athygli nú, er að vart varð við örsmáan makríl á fyrsta aldursári djúpt úti af Suð-Vesturlandi en það bendir til þess að makríll sé farinn að hrygna innan íslenskrar lögsögu.

Frá þessu er greint á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. Þessar fyrstu niðurstöður koma fáum á óvart því varð hefur orðið við mikla makrílgengd allt í kringum landið í sumar og víða hafa makríltorfur gengið inn á firði og flóa.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, eru þessar fréttir aðeins staðfesting á ýmsu af því sem menn hafa orðið vitni að nokkur undanfarin ár.

,,Ég get nefnt sem dæmi að smár makríll hefur fengist sem meðafli á bolfiskveiðum en það hefur bent til þess að makríll sé farinn að hrygna í íslensku lögsögunni. Staðfesting á því liggur nú fyrir. Þessar niðurstöður renna óneitanlega styrkari stoðum undir kröfur Íslendinga varðandi sanngjarna hlutdeild í heildarmakrílkvótanum í Norður-Atlantshafi og vonandi verða þær til þess að viðsemjendur okkar átti sig á því mjög stór hluti makrílstofnsins leitar árlega í fæðisleit inn í landhelgina,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Þess má geta að makrílkvóti uppsjávarveiðiskipa HB Granda er tæplega 16.000 tonn á þessu ári. Því til viðbótar hafa togarar félagsins rúmlega 5.500 tonna makrílkvóta. Alls er því kvóti ársins um 21.500 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir