FréttirSkrá á póstlista

15.08.2012

Hratt gengur á makrílkvótann

Makrílveiðar uppsjávarveiðiskipa HB Granda hafa gengið vel í sumar. Í byrjun vikunnar var búið að veiða um 11.400 tonn af makríl á vertíðinni og þá voru óveidd um 4.500 tonn. Hlutfall síldar í makrílaflanum hefur aukist upp á síðkastið og skip sem eru á síldveiðum norðan við helsta makrílveiðisvæðið hafa verið að fá 10-20% meðafla af makríl.

,,Veiðin hefur verið í góð lagi í sumar. Það kom reyndar smá deyfð í þetta í gær, eins og gerist af og til, en eftir að við komum á miðin um miðnætti sl. hafa aflabrögðin verið með ágætum,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, en er rætt var við hann laust upp úr hádeginu í dag var verið að ljúka þriðja holi veiðiferðarinnar í Litladjúpi.

,,Það var síld með makrílnum í fyrsta holinu en í morgun fengum við hreint, 200 tonna makrílhol og ég er að vonast til þess að aflinn í því þriðja dugi til að ná skammtinum fyrir vinnsluna eða um 400 til 500 tonnum,“ sagði Guðlaugur en samkvæmt upplýsingum hans er nú lögð áhersla á því að ná makrílkvótanum en síðan verður haldið til síldveiða.

,,Vestmannaeyingarnir hafa verið á síldveiðum á tveggja báta trolli fyrir norðan okkur, í Reyðarfjarðardýpinu og norður í Héraðsflóadjúp, en mér skilst að þeir séu að fá nokkuð af makríl sem meðafla. Menn verða því að gæta þess að eiga einhvern makrílkvóta eftir áður en haldið er til síldveiða,“ segir Guðlaugur.

Vinnsla í uppsjávarhúsinu á Vopnafirði hefur gengið vel í sumar enda eru skipin þrjú, sem sjá vinnslunni fyrir hráefni, í höfn á þriggja daga fresti með 400 til 500 tonna afla hvert. Makríllinn, sem nú veiðist er feitur og fallegur og meðalvigtin hjá Ingunni í yfirstandandi veiðiferð er rúmlega 400 grömm.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir