FréttirSkrá á póstlista

30.07.2012

Makríllinn fitnar hratt

Uppsjávarveiðiskip HB Granda hafa einbeitt sér að makrílveiðum upp á síðkastið og hafa veiðarnar gengið ágætlega. Makríllinn er heldur smærri en á sama tímabili í fyrra en hann hefur fitnað hratt og í síðustu viku var fituinnihaldið komið vel yfir 20%.

Faxi RE er á miðunum norður af Hvalbakshallinu um 115 mílur frá Vopnafirði og er rætt var við Hjalta Einarsson, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, var verið að taka þriðja holið í túrnum. Aflinn í hinum tveimur var um 290 tonn en æskilegur skammtur fyrir vinnsluna á Vopnafirði um þessar mundir er um 350 til 400 tonn í túr.

,,Veiðin hefur verið þokkaleg og við erum að vonast til að ná skammtinum fyrir kvöldið. Það lóðar ekki mikið á makrílinn en menn geta verið að draga trollið á engu lóði en samt fengið ágætan afla. Við erum mest að toga í um þrjá og hálfan tíma í einu og reynum að fara ekki yfir fjóra tímana,“ sagði Hjalti er rætt var við hann nú um miðjan dag.

Flest uppsjávarveiðiskipanna hafa verið að makrílveiðum undanfarna daga og frekar fá skip eru á síldveiðum um þessar mundir. Aflinn, sem áhöfnin á Faxa hefur fengið í síðustu veiðiferðum, er nánast hreinn makríll og hlutfall síldar hefur aðeins verið um 5%.

,,Þeir, sem eru á síldveiðum, eru hér mun norðar í kaldari sjó og það er allur gangur á því hvernig aflabrögðin hafa verið. Það er erfitt að vera einskipa á þessum veiðum enda getur þá farið mikill tími í að leita að síld í veiðanlegu magni,“ sagði Hjalti Einarsson.

Ingunn AK er nú á leið á miðin en Lundey NS er í höfn á Vopnafirði. Frá 24. júlí til dagsins í dag hafa alls rúmlega 2.800 tonn af fiski, mest makríl, borist til Vopnafjarðar. Á þessari viku hefur Lundey landað þrisvar en Ingunn og Faxi eru með tvær landanir hvort skip.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir