FréttirSkrá á póstlista

24.07.2012

Búið að veiða fjórðung síldar- og makrílkvótans

Lundey NS er nú í höfn á Vopnafirði en skipið kom þangað í gærkvöld með um 480 tonna makrílafla sem fékkst í þremur holum suður undir Litladýpi. Makríllinn er af þokkalegri stærð eða að jafnaði um 450 grömm að þyngd en nokkur áta var í honum að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra.

,,Það er makríll mjög víða og þótt það hafi ekki orðið vart við verulegar lóðningar þá var vandalaust að ná góðum afla. Við fengum þessi 480 tonn svo að segja í sama ,,plottfarinu“. Í túrnum á undan vorum við í Rósagarðinum og þar var stór torfa og þá tók það ekki nema um 30 mínútur að fá um 200 tonna hol. Sá makríll var reyndar frekar smár og meðalvigtin hefur varla verið meiri en um 320 grömm,“ segir Arnþór en hann upplýsir að í síðustu veiðiferðum hafi verið leitast við að veiða makríl en framan af vertíðinni var meiri áhersla lögð á síldveiðarnar.

Af hinum uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að segja að Ingunn AK fór frá Vopnafirði í nótt áleiðis á miðin og Faxi RE er á landleið með afla. Lokið verður við að landa úr Lundey á morgun og fer skipið vætanlega fljótlega til veiða að löndun lokinni. Að meðtöldum afla Lundeyjar hafa skipin nú veitt um 8.000 tonn af síld og makríl en samanlagður kvóti í þessum tveimur tegundum er um 32.000 tonn á árinu. Vinnslan á Vopnafirði hefur gengið vel og þar er nú búið að frysta um 4.000 tonn af síldar- og makrílafurðum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir