FréttirSkrá á póstlista

13.07.2012

Mun meira af makríl en síld

,,Við erum á síðasta holinu í veiðiferðinni og ég er að vonast til þess að aflinn í því verði um 100 tonn. Þá verðum við með alls um 450 tonn og það er ágætur skammtur fyrir vinnsluna á Vopnafirði,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er haft var samband við hann nú í hádeginu. Faxi var þá að veiðum djúpt austur af Hornafirði.

Að sögn Alberts hófust veiðar í gærmorgun en þá var eitt kast tekið í Seyðisfjarðardjúpi. Þar fengust um 70 tonn af svotil hreinni síld en þar sem ekki varð vart við lóðningar í næsta nágrenni var stefnan tekin suður með austurströndinni og á miðin djúpt austur af Hornafirði.

,,Það er nokkur fjöldi skipa hér á svæðinu og aflinn hefur verið alveg þokkalegur. Hér er hins vegar töluvert meira af makríl en síld og ég heyrði það frá öðrum skipstjórum að hlutfall síldar í aflanum hjá þeim í síðustu holum hefði farið alveg niður í 20%. Fiskurin er nokkuð blandaður af stærð en hentar örugglega vel til vinnslu,“ sagði Albert Sveinsson en hann áætlar að um 12 til 13 tíma sigling sé frá miðunum til Vopnafjarðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir