FréttirSkrá á póstlista

10.07.2012

Síldar- og makrílvinnslan skapar hátt í 150 störf

Vinnslan á síld og makríl er komin í gang af fullum krafti á Vopnafirði. Um 2.700 tonn af fiski hafa borist að landi frá því að veiðar hófust um sl. mánaðamót og nú vinna hátt í 150 manns við vinnslu á aflanum í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum.

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda hafa komið tvívegis að landi með afla á vertíðinni og ekki er nema um átta tíma sigling á miðin úti fyrir Austfjörðum. Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda, hefur aflinn verið ferskur en nokkuð er um átu í fiskinum um þessar mundir. Hann segir að fram að þessu hafi hlutfall síldar í aflanum verið um 60% en reynt er að haga veiðum þannig að meira veiðist af síld en makríl nú í byrjun vertíðarinnar.

,,Öll síldin fer í flakavinnslu eða í svokölluð samflök sem síðan eru fryst. Varðandi makrílinn er það að segja að við höfum við hausskorið og slógdregið þann smærri en heilfryst þann stærri í blásturfrystunum,“ segir Magnús Róbertsson en hann er ánægður með ferskleika fisksins og nýtinguna í vinnslunni fram að þessu. Sáralítið af heilum fiski hafi farið til bræðslu í fiskmjölsverksmiðju félagsins fram að þessu en allur afskurður og úrgangur fer þangað til bræðslu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir