FréttirSkrá á póstlista

02.07.2012

Fyrsti síldar- og makrílaflinn til Vopnafjarðar

Von er á fyrsta síldar- og makrílaflanum á nýhafinni vertíð til Vopnafjarðar í kvöld. Ingunn AK er á landleið með rúmlega 400 tonna afla sem fékkst í þremur stuttum holum út af Þórsbankanum og svæðinu þar norður af í gær.

Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra, hófust veiðar í gærmorgun og þá var tekið stutt hol út af Þórsbankanum. Aflinn reyndist vera nánast eingöngu makríll og því var ákveðið að færa sig norður fyrir bankann í von um síldarafla. Það tókst að því marki að aflinn í tveimur stuttum holum í gærkvöldi var til helminga síld og makríll.

,,Þetta lítur ágætlega út. Við vorum að fá þennan afla á afmörkuðum blettum og stærðin á fiskinum er fín þótt hann sé ekki mjög feitur eins og gengur og gerist á þessum árstíma. Meðalvigtin á makrílnum er um 450 grömm og síldin er aðallega á bilinu 300 til 350 grömm,“ segir Guðlaugur.

Fá skip voru að veiðum í nágrenni við Ingunni í gær en að sögn Guðlaugs voru flest skipanna, sem voru að veiðum, mun grynnra og á höttunum eftir makríl. Í dag er skip frá Hornafirði komin á svipaðar slóðir og Ingunn var á í gær og Lundey NS var að koma á miðin þegar rætt var við Guðlaug Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir