FréttirSkrá á póstlista

29.06.2012

Vonast til að tvöfalda afköstin í vinnslunni

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir að undanförnu í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði. Stefnt er að því að þeim ljúki um helgina þannig að allt verði klárt í vinnslunni þegar fyrsti aflinn á síldar- og makrílvertíðinni berst að landi en það gæti orðið nk. mánudag. Ingunn AK fór áleiðis á miðin út af SA-landi í gærkvöldi og munu Lundey NS og Faxi RE fara til veiða nú um helgina.

Samkvæmt upplýsingum Þorgríms Kjartanssonar, gæðastjóra uppsjávarvinnslu HB Granda, hafa framkvæmdir í uppsjávarfrystihúsinu gengið vel og hann reiknar með að þeim ljúki um helgina.

,,Það er búið að skipta út tveimur gömlum og viðhaldsfrekum flökunarvélum fyrir tvær nýjar, alsjálfvirkar flökunarvélar en með tilkomu nýju vélanna verðum við með fimm alsjálfvirkar flökunarvélar í vinnslunni og tvær eldri hálfsjálfvirkar vélar sem eru í mjög góðu ástandi. Þá erum við búnir að bæta við tveimur nýjum blástursfrystum og erum því með fjóra blástursfrysta alls og við vonumst til að þetta verði til að meira en tvöfalda afköstin í blástursfrystingunni,“ segir Þorgrímur en þess má geta að kassarnir með afurðunum þurfa að vera í 16-18 tíma í frystunum áður en þeim er pakkað á bretti. Auk fyrrgreindra framkvæmda hefur sjálfvirkni í pökkun og stöflun umbúða á bretti verið aukin til muna og einnig hefur aðstaða fyrir starfsmenn verið bætt verulega, m.a. með nýrri viðbyggingu.

Þótt fjárfestingar í nýjum, sjálfvirkum búnaði valdi því að færra starfsfólk þurfi við framleiðsluna en ella hefði verið, þá verður ekki annað sagt en að starfsemin í uppsjávarfrystihúsinu sé jafngildi stóriðju fyrir þetta fámenna byggðarlag. Þorgrímur segir að reiknað sé með því að starfsmannafjöldinn í sumar og fram á haust verði um 120 til 150 manns.

,,Við verðum með skiptikerfi í vinnslunni. Gengið er út frá því að unnið sé á tveimur 12 tíma vöktum en unglingar yngri en 18 ára vinna þó aðeins sex tíma í senn. Þá munu einhverjir starfsmenn vinna á átta tíma vöktum,“ segir Þorgrímur Kjartansson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir