FréttirSkrá á póstlista

19.06.2012

Engar sumarlokanir í Reykjavík og á Akranesi

Full starfsemi verður í fiskiðjuverum HB Granda í Reykjavík og á Akranesi og munu skólanemar standa vaktina á meðan fastráðna starfsfólkið er í sumarleyfum. Á Vopnafirði hefur vinnsla á uppsjávarfiski legið niðri frá því að vinnslu á loðnu lauk þann 4. mars sl. og hefur starfsfólkið verið í sumarfríi að undanförnu. Stefnt er að því að hefja veiðar á síld og makríl í lok mánaðarins og vinnsla ætti því að hefjast að nýju í byrjun næsta mánaðar.

Að sögn Torfa Þorsteinssonar, framleiðslustjóra HB Granda, hafa um 60 ungmenni verið ráðin til starfa í fiskiðjuverinu á Norðurgarði í Reykjavík í sumar og á Akranesi er fjöldinn um 25. Líkt og í fyrra verður ekki gert hlé á starfseminni á þessum stöðum. Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, segir að vinnsla í uppsjávarfrystihúsinu hefjist í byrjun júlí en flestir starfsmanna í vinnslunni nýttu hléið, sem verið hefur frá því að loðnuvertíðinni lauk, til að fara í sumarleyfi. Þrátt fyrir það munu um 40 til 45 ungmenni starfa við vinnslu á síld og makríl í sumar þannig að þegar á heildina er litið munu allt að 130 skólanemar starfa við sumarafleysingar hjá félaginu í sumar.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir að m.a. hafi verið ákveðið að bíða með byrjun veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og makríl fram undir mánaðamót þar sem fiskurinn sé frekar magur á þessum árstíma. Hann fitnar hins vegar hratt þegar kemur fram á sumarið og er þá mun verðmætara hráefni til vinnslu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir