FréttirSkrá á póstlista

07.06.2012

Huga að heilsunni – hætta í óhollustunni

Stjórnendur HB Granda ákváðu fyrr á þessu ári að bjóða öllu starfsfólki félagsins upp á heilsufarsskoðun því að kostnaðarlausu. Margir hafa þegar nýtt sér þetta tilboð og á Vopnafirði hafa flestir starfsmannanna nú þegar farið í skoðun á heilsugæslustöð HSA á staðnum og fengið niðurstöður mælinga.

Í heilsufarsskoðuninni, sem farið er með sem trúnaðarmál hvers og eins starfsmanns, er almennt heilsufar kannað, m.a. með tilliti til blóðþrýstings, blóðsykursmagns, kólesterolgilda, sjónar og heyrnar auk fleiri þátta. Þá fékk félagið Sonju Sif Jóhannsdóttir, forvarnarfulltrúa hjá TM, til að halda fyrirlestra um heilsufar, hreyfingu og matarræði og virðast heilsufarsskoðunin og fyrirlesturinn hafa hreyft við Vopnfirðingum á mælanlegan hátt.

Samkvæmt upplýsingum Árna S. Róbertssonar, kaupmanns í Kauptúni á Vopnafirði, dróst sælgætissala í versluninni saman um rúm 26% í aprílmánuði en það var fyrsti heili mánuðurinn eftir að heilsuátakið hófst. Í sama mánuði minnkaði sala á gosdrykkjum um 21%. Árni segir að sala á ávöxtum og grænmeti hafi hins vegar aukist um 17% og sala á ávaxtasöfum um 12%.

,,Mér finnst þetta mjög jákvætt. Það er greinilegt að fólk er farið að huga meira að mataræðinu og heilsunni en fyrir ekki svo löngu síðan. Það var t.d. 4% samdráttur í sölu á tóbaki hjá mér í apríl og ég get ekki verið annað en ánægður með það.“

Umræðan um bætta heilsu varð svo til þess að stofnaður var gönguhópur innan starfsmannafélags HB Granda á Vopnafirði.

,,Það var lengi búið að ræða að gaman væri að stofna gönguhóp með það að markmiði að hvetja fólk til að hreyfa sig. Af einhverjum ástæðum varð aldrei neitt úr því en nú var sem sagt ákveðið að taka af skarið og stíga fyrsta skrefið,“ segir Kristrún Ósk Pálsdóttir sem var ein þeirra sem beitti sér fyrir stofnun hópsins. Hún er ánægð með þátttökuna en allt að tíu manns hafa mætt í göngurnar. Það verður teljast gott og þá ekki síst í ljósi þess að sumarleyfi eru nú uppsjávarfrystihúsinu og fiskmjölsverksmiðjunni á staðnum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir