FréttirSkrá á póstlista

02.06.2012

HB Grandi og sjómannadagurinn

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að sjómannadagurinn er á morgun. Sá dagur hefur um langt skeið verið haldinn hátíðlegur og ef eitthvað er hefur vegur hans aukist á síðustu árum vegna þeirra fjölmörgu hátíða sem haldnar eru í tengslum við sjómannadaginn um land allt. Reykjavík er þar engin undantekning og nú um helgina verður Hátíð hafsins haldin og líkt og fyrr er vettvangur hátíðarhaldanna Grandinn og hafnarsvæðið.

HB Grandi hefur tekið virkan þátt í hátíðarhöldunum á Grandanum frá því að Hátíð hafsins var fyrst haldin og svo verður einnig í ár. Að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra félagsins, hefur gestum og gangandi verið boðið í kaffi og meðlæti í matsal fiskiðjuvers HB Granda við Norðurgarð frá kl. 14-17 á sjómannadaginn. Undanfarin tvö ár hefur HB Grandi fengið Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík til að sjá um veitingarnar og þær mætu konur munu einnig standa vaktina í ár. Auk viðgjörnings í matsalnum verður boðið upp á kaffi, ávaxtasafa, vöfflur og kleinhringi í veitingatjaldi utandyra.

,,Helsta breytingin frá fyrri árum er sú að nú efnum við að auki til fjölskylduhátíðar utandyra og þangað flytjum við skemmtiatriðin sem fram að þessu hafa verið í matsalnum,“ segir Svavar en hátíðin hefst í á morgun, sunnudag kl. 14:00 og stendur í þrjá tíma. Skemmtiatriðin eru ekki af verri endanum. Fyrstur á svið er leikhópurinn Ávaxtakarfan, sem einnig kemur fram kl. 15:30. Villi og Sveppi koma fram kl. 14:30 og Söngvaborg tekur við kl. 15:00. Að loknum síðari flutningi Ávaxtakörfunnar stígur hljómsveitin Loftskeytamennirnir á svið kl. 16:00 og sér um að sjómannalögin fái notið sín í sumarblíðunni. ,,Sjóræningjar“ verða á svæðinu, boðið verður upp á alvöru sjómannaþrautir, andlitsmálningu og börn fá ís og blöðrur. Kynnir á útihátíð HB Granda er Sólmundur Hólm.

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu HB Granda.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir