FréttirSkrá á póstlista

23.05.2012

Miklar framkvæmdir á Vopnafirði

Vinnsla liggur nú niðri í uppsjávarfrystihúsinu og fiskmjölsverksmiðjunni á Vopnafirði og hefst starfsemi að nýju væntanlega ekki fyrr en í lok næsta mánaðar. Þrátt fyrir það eru miklar framkvæmdir í gangi við uppsjávarfrystihúsið og m.a. er unnið að því að koma fyrir nýjum flökunarvélum og auka frystigetuna.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, verður tveimur elstu flökunarvélunum í vinnslunni skipt út fyrir tvær nýjar og alsjálfvirkar Baader-flökunarvélar. Einnig er stefnt að því að tvöfalda frystigetuna í blástursfrystinum og auka sjálfvirkni viðkomandi vinnslulínu.

,,Þá er verið að stækka starfsmannaaðstöðuna til mikilla muna en það var orðið þröngt um starfsfólkið vegna þeirra auknu umsvifa sem orðið hafa á starfseminni,“ segir Magnús en samkvæmt upplýsingum hans munu vélstjórar félagsins og verktakar vinna að umræddum breytingum auk almenns viðhalds. Þar sem að veiðar á síld og makríl hefjast ekki fyrr en í lok næsta mánaðar fer starfsfólkið í vinnslunni í sumarfrí, sem hefjast nú í vikulokin, en fólkið mun mæta aftur til vinnu 24. júní nk.

,,Við höfum notað tímann að undanförnu og verið með hin ýmsu námskeið fyrir allt okkar starfsfólk á Vopnafirði. Haldin voru grunnnámskeið og framhaldsnámskeið fyrir fiskvinnslufólk en síðarnefnda námskeiðið felur í sér að þeir, sem því ljúka, hækka í launum. Þá hafa verið haldin fleiri vinnutengd námskeið, s.s. skyndihjálpar-, gæða- og hreinlætisnámskeið, sem og valfrjáls afþreyingarnámskeið,“ segir Magnús Róbertsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir