FréttirSkrá á póstlista

10.05.2012

Man ekki eftir betra ástandi á gullkarfastofninum

Von er á frystitogaranum Helgu Maríu AK til hafnar í Reykjavík á morgun eftir stutta veiðiferð. Aflanum, um 7.000 kössum af blönduðum afla, verður landað og tekið verður um borð nýtt Gloríuflotttroll frá Hampiðjunni sem notað verður á úthafskarfaveiðunum sem nú eru að hefjast. Að sögn Eiríks Ragnarssonar, skipstjóra, liggur mönnum þó ekki lífið á vegna þess hve mikið úthafskarfakvótinn hefur verið skertur milli ára.

,,Við höfum verið á heimaslóðum í þessari 11 daga veiðiferð og farið víða. Við fórum fyrst alveg austur í Hvalbakshall til að leita að ufsa en það gekk erfiðlega að finna hreinan ufsa. Það er nánast sama hvar trolli er dýft niður. Það er alls staðar þorskur á öllum grunnum og í öllum köntum. Menn eru farnir að hífa eftir fimm mínútna hol til þess að lenda ekki í vandræðum,“ segir Eiríkur en að hans sögn er það ekki bara þorskstofninn sem vel er haldinn um þessar mundir.

,,Ég er búinn að vera á þessum veiðum síðan 1975 og ég man ekki eftir betra ástandi á gullkarfastofninum. Útbreiðsla hans er sömuleiðis með ólíkindum og megnið af karfaaflanum veiðist nú á óhefðbundnum veiðisvæðum. Það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir ekki svo árum ef menn hefðu fengið góðan karfaafla á Halanum en nú kemur fyrir að upp í 25 tonn af hreinum karfa fáist í holi. Svo virðist sem að árgangar, sem búið var að afskrifa, séu að koma að krafti inn í veiðina og þess sáust strax merki í fyrra,“ segir Eiríkur.

 

Góðir gestir frá Japan

Að sögn Eiríks eru nú um borð tveir japanskir sjómenn, skipstjóri og bátsmaður, og hafa þeir verið að fylgjast með því hvernig áhöfnin á Helgu Maríu ber sig að við veiðarnar.

,,Það er gaman að hafa þá með og þeir ætla að klára túrinn með okkur og fara með í úthafið. Navis er að hanna frystitogara fyrir útgerðina, sem þeir starfa hjá, og skipið verður smíðað í Japan. Þetta verður svipað skip að stærð og Helga María en með 1.000 hestöflum aflmeiri vél. Kostnaður við smíðina er áætlaður sem svarar til 4,5 til 5 milljarða íslenskra króna. Japanirnir hafa mikinn áhuga á að kynna sér hvernig við stöndum að veiðunum og sömuleiðis á þeim búnaði og veiðarfærum sem við notum. Frystitogarinn, sem þeir voru á, hvarf í flóðbylgjunni miklu í fyrra og mér skilst að það hafi orðið gríðarlegt tjón á fiskiskipaflotanum þar sem flóðbylgjan reið yfir og endurnýjunarþörfin er því mikil,“ segir Eiríkur en að hans sögn hefur mjög margt komið japönsku sjómönnunum á óvart í þessum fyrri hluta veiðiferðarinnar.

,,Við erum að fiska meira en þeir en ársafli togarans sem hvarf var um 3.000 tonn á ári. Það voru 30 manns í áhöfninni en í Japan tíðkast ekki að menn gangi vaktir eins og gert er á íslenskum skipum. Ef það var veiði þá voru allir 30 skipverjarnir að í einu. Þá kom mér það á óvart að skipstjórinn sagði mér að ef hann væri ekki í brúnni þá væri ekki togað. Hér skiptumst við á eins og alkunna er,“ segir Eiríkur.

Gloríunafnið
Sem fyrr segir verður nýtt Gloríuflottroll tekið um borð í Reykjavík og af því tilefni rifjar Eiríkur það upp að nafnið hafi orðið til um borð í Helgu Maríu árið 1991.

,,Skipið hét þá reyndar Haraldur Kristjánsson HF. Ég var stýrimaður en Páll Eyjólfsson var skipstjóri. Guðmundur Gunnarsson hjá Hampiðjunni hafði hannað nýtt og stórt flottroll og það var verið að reyna það um borð hjá okkur. Páll sagði við Guðmund þegar hann sá trollið og teikningar af því: ,,Þetta er nú meiri glorían sem þú ert búinn að búa til. Hvenær heldur þú að við fáum fisk í þetta fyrirbæri?“ Guðmundur hefur greinilega munað eftir þessu og Gloríunafnið festist við trollið.“

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir