FréttirSkrá á póstlista

04.05.2012

Vinnslu lýkur í dag

Í dag verður lokið við að vinna úr 1.540 tonna afla Faxa RE í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra, er hér um að ræða síðasta, heila kolmunnafarm ársins hjá skipum HB Granda og útlit er fyrir að vinnsla hefjist ekki að nýju fyrr en um mánaðamótin júní og júlí þegar farið verður til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og makríl.

,,Þetta hefur verið góð vertíð. Ekki nóg með að loðnuveiðar hafi gengið mjög vel þá munar um þessi 11.800 tonn af kolmunna sem hingað hafa borist,“ segir Sveinbjörn en þess má geta að fyrsti kolmunnafarmurinn á vertíðinni barst til Vopnafjarðar 17. apríl sl.

Kolmunninn, sem veiðst hefur í færeysku lögsögunni að undanförnu, er mjög magur og því er hlutfall lýsis í vinnslunni lágt. Sveinbjörn segir kolmunnamjölið hins vegar vera eftirsótt og á sumum markaðssvæðum sé mikil eftirspurn eftir ljósu fiskmjöli.

,,Menn eru fyrst og fremst að hugsa um innihald próteins þegar þeir kaupa fiskmjöl. Kolmunni er hvítfiskur og mjölið er ljósara en t.a.m. loðnumjöl. Beinahlutfallið er reyndar mun hærra en í loðnu en kolmunnamjölið er ekkert verra og það er eftirsótt á sumum markaðssvæðum,“ segir Sveinbjörn.

Nú um helgina verður farið í þrif á búnaði fiskmjölsverksmiðjunnar á Vopnafirði og hlé verður væntanlega á vinnslu næstu tæplega tvo mánuði eða svo. Sveinbjörn Sigmundsson segir að fjölmargir starfsmenn HB Granda á Vopnafirði hyggist taka sumarleyfi í júnímánuði enda eigi menn von á mikilli vinnu eftir að veiðar á síld og makril hefjast í sumar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir