FréttirSkrá á póstlista

24.04.2012

Sjávarútvegssýningin í Brussel hafin

Sjávarútvegssýningin, European Seafood Exposition, var formlega opnuð í Brussel í morgun og mun hún standa fram til fimmtudags. Meðal þátttakenda er HB Grandi en um 15 manns eru staddir í Brussel á vegum félagsins vegna sýningarinnar. Samhliða sjávarafurðasýningunni er haldin sýningin Seafood Processing Europe sem vettvangur þeirra fyrirtækja sem framleiða vinnslutæki eða bjóða upp á þjónustu tengda útflutningi á sjávarafurðum.

Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, stendur vaktina í Brussel með sínu fólki og hann á von á góðri sýningu og að fjölmenni leggi leið sína á sýningarbás félagsins (nr. 839-1). Forseti Íslands heimsótti íslenska þjóðarbásinn í sýningarhöll 6 í morgun en nú þegar þetta er ritað heldur hann erindi á hádegisverðarfundi Iceland Responsible Fisheries þar sem nýja íslenska umhverfisvottunarkerfið fyrir ábyrgar fiskveiðar verður í sviðsljósinu.

,,Við eigum von á miklum fjölda erlendra fiskkaupmanna á þennan fund, enda er vaxandi áhugi fyrir þessari alþjóðlegu, íslensku umhverfisvottun um ábyrgar fiskveiðar á Íslandi. Þá mun forsetinn einnig verða viðstaddur sérstaka móttöku á sýningarbás Íslandsstofu sem skipulögð er í samvinnu við sendiráð Íslands í Brussel. Móttakan er opin öllum gestum sýningarinnar og ég á von á fjölmenni,“ segir Svavar Svavarsson.

Sjávarútvegssýningin í Brussel er stærsta sjávarútvegssýning heims og hana sækja heim fulltrúar fyrirtækja sem kaupa afurðir af framleiðendum

.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir