FréttirSkrá á póstlista

14.04.2012

Aðalfundur HB Granda hf. 13. apríl 2012

Skýrsla formanns stjórnar, Árna Vilhjálmssonar

Fundarstjóri, góðir fundarmennÍ þau 24 skipti, sem ég hef staðið hér í þessum stað í sama hlutverkinu, hefur sjaldan verið eins ánægjulegt að hefja lesturinn en einmitt nú. Árið, sem er að baki, skilaði okkur langhæstum hagnaði í sögu félagsins. Hreinn hagnaður (þ.e. hagnaður eftir frádrátt tekjuskatts) nam 37,3 m€. Arðsemi eigin fjár telst hafa verið 26,4%. Þetta eru myndarlegar tölur. Og ólíkt því sem var árið á undan þá brenglar það lítið hagnaðartöluna, að tekjuskattur í evruuppgjöri okkar er reiknaður út frá uppgjöri í íslenskum krónum. Í krónum talinn nam hagnaðurinn 6.006 m. Næstbesti árangur um afkomu náðist árið 2002, sem skilaði bara tæplega 3.200 mkr. og er þá mælt í krónum með sama kaupmátt í báðum tilvikum. Arðsemi eigin fjár fór þá upp fyrir 40%. Þetta var reyndar árið, þegar félagið var forstjóralaust drjúgan hluta ársins.
Starfsemin á árinu var með svipuðu sniði og árið áður, en verð afurða nokkru betri. Það sem skar sig úr var þáttur makrílsins í allri starfsemi fyrirtækisins; í veiðum, vinnslu og markaðssetningu. Það var vitað snemma á árinu, að ráðherra hygðist beita valdi sínu til að gefa öðrum skipum en uppsjávarfiskiskipum tækifæri til mun meiri þátttöku í veiðunum en áður. Leitast var við að vanda sem mest allan undirbúning að meðferð þessa viðkvæma fisks. Í veiðunum tóku þátt í einhverjum mæli öll skip okkar, að undanskildum Víkingi. Afli ísfiskskipanna, rúm 700 tonn, var unninn á Akranesi, frystiskipin fimm unnu sjálf sinn afla, 5.700 tonn, og allur afli uppsjávarskipanna þriggja, 16.200 tonn, var unninn á Vopnafirði. Úr þeim afla komu 11.100 tonn af frystum afurðum. Við gátum nýtt veiðiheimildir okkar til fulls, og gerði aflinn um 14,5% af heildarveiði landsmanna. Afli uppsjávarskipanna var aðeins 1.100 tonnum meiri en árið áður, en gæði afla og afurða mun betri. Afli botnfiskskipanna jókst hins vegar milli ára um meira en helming, úr 3.000 tonnum í 6.400 tonn. Þýðing makrílsins á þessu ári í heildarstarfseminni kemur vel fram í því, að EBITDA-framlegð makrílhlutans nam 23,5% af allri EBITDA félagsins upp á 56,2 m€, á meðan makrílafli okkar nam aðeins 14,2% af rúml. 161 þús. tonna heildarafla skipa okkar á árinu. Í framlegð makrílbúskapar okkar er samanlagður hlutur uppsjávarskipanna og vinnslnanna á Vopnafirði vissulega yfirgnæfandi. – Það kom sér líka vel fyrir frystitogarana að fá verkefni við makrílveiðar, þar sem undanfarandi viðureign við úthafskarfa var stutt en laggóð, eins og reyndar árið áður. - Uppsjávarskipin höfðu líka öðru að sinna á árinu en makrílveiðum. Árið byrjaði með loðnuvertíð með veiðiúthlutun, sem var mun rausnarlegri en nokkur undanfarandi ár og tókst ágætlega að nýta 62.000 tonna afla, aðallega við vinnslu í mjöl og lýsi. Þá ætti að hafa tekið við verkefni við veiðar á kolmunna, í apríl/maí. Árið áður höfðu skip okkar mátt veiða rúml. 18.000 tonn. En að þessu sinni var ástand stofnsins svo lélegt og veiðiúthlutun svo hverfandi lítil, að ekkert gat orðið af beinni veiði, heldur einungis sem meðafla. Og svo um haustið, að lokinni veiði á norsk-íslenskri síld, hefði svo átt koma röðin að íslensku sumargotssíldinni. Sú vertíð brást fjórða árið í röð vegna þrálátrar sýki, sem spillti þó ekki að mun gæðum þeirrar síldar, sem leyfi fékkst til að veiða. Í okkar hlut komu vel á 6. þús tonn. Af þessu spjalli má ráða, að ef allt hefði leikið í lyndi, hefði þetta gjöfula ár getað komið ennþá betur út. En þá skyldi þess minnst, að verulegur hluti makrílaflans var fenginn í óþökk margra nágrannaþjóða okkar.
Áður en ég vík að þeim breytingum, sem urðu á efnahag félagsins á þessu farsæla liðna ári, vildi ég gjarnan gera örstutta grein fyrir því, hvernig okkur hefur farnast í þeirri starfsemi, sem við stundum til hliðar við íslenskan sjávarútveg. Þar er um þrenns konar starfsemi að ræða: þ.e. tilraunaeldi á þorski, í öðru lagi rekstur dótturfélags okkar Stofnfisks hf., þar sem megináhersla er lögð á framleiðslu laxahrogna til áframeldis, og svo þátttaka í rekstri sjávarútvegsfyrirtækis í Chile. - Í samvinnu við Gunnvöru hf. á Ísafirði, og Hafró, og með styrk frá AVS sjóðnum höfum við í gegnum hf. Icecod tekið þátt í kynbótum á þorski og framleiðslu smáseiða í starfsstöð Stofnfisks í Höfnum á Reykjanesi. Eftir framhaldseldi seiðanna í starfsstöð Gunnvarar að Nauteyri við Ísafjörð hefur okkar hluti seiðanna verið fluttir sjóleiðis til starfsstöðvar HB Granda í Berufirði. Þriggja manna starfslið okkar þar hefur séð um gæslu og umönnun fisksins fram að slátrun. Því miður hefur komið í ljós að því fer fjarri, að tekist hafi að ná viðunandi árangri. Afföll í kvíum hafa orðið óásættanleg, aðallega vegna sjúkdóma. Af útskýranlegum afföllum hefur verulegt tjón stafað af bakteríusjúkdóm, kýlaveikibróður, sem ekki er til bóluefni gegn; það hefur tekist að búa slíkt efni til gagnvart laxi. Væntingar um aukningu vaxtarhraða, sem gerðar höfðu verið í upphafi kynbótaverkefnis, hafa hins vegar staðist fyllilega í þeim tveim kynslóðum, sem til hafa orðið á 6 árum. Það varð svo úr í lok febrúar síðastliðins, að stjórn HB Granda ákvað að hætta starfseminni í Berufirði við fyrstu hentugleika, slátra fiski og segja upp starfsmönnum, öðrum en forstöðumanni. Verið er að kanna, hvernig best verði að nýta eignir og aðstöðu fyrir austan. - Það var líka ákveðið að leitast við að fá Hafró og AVS sjóð til að halda kynbótastarfinu áfram í a.m.k. 10 ár. í trausti þess, að við teldum verjandi að ráðstafa til verkefnisins því fé, sem við yrðum að leggja fram. Þess er að geta, að sérfræðingur okkar dr. Jónas Jónasson í Stofnfiski, telur að auk þess sem ná megi frekari árangri varðandi vaxtarhraða, sé sennilegt, að með kynbótum megi auka viðnám þorsks gegn kýlaveikibróður. – Það eru í gangi viðræður milli aðila að þessu máli.
Ég vík þá að Stofnfiski hf. Við eigum 65% hlut í félaginu. Meginverkefni þess er að bjóða til sölu laxahrogn til notkunar í eldi.
Klakfiskurinn er alinn í kvíum á landi í lokuðu rými. Hrognin eiga að vera algerlega laus við sjúkdóma. Með því að stýra birtu með ljósum er unnt að stjórna hrygningartíma og þannig bjóða upp á hrogn á öllum tímum árs. Hrognin hafa verið seld til Chile, Færeyja og Noregs og svo hér innanlands. Af um 50 millj. hrogna sölu á síðasta ári fóru 30 m. stk. til Chile. Á síðasta ári námu rekstrartekjur samtals 998 mkr og út kom hagnaður að fjárhæð 325 mkr, þ.e. 32,5% af tekjunum. Í okkar hlut komu um 1,4m€. Þetta er út af fyrir sig þokkaleg afkoma, en vonbrigði samt þeim sem til þekkir. Framan af ári leit út fyrir að salan yrði miklu meiri, en svo gerðist það, að nokkrir kaupendur í Síle brugðust/stóðu ekki við pantanir sínar; báru fyrir sig mikilli verðlækkun á laxi, sem vissulega hafði orðið. Það vekur bjartsýni, að afkastageta fyrirtækisins leyfir verulega aukningu sölu.
Loks er komið að hlutdeildarfélagi okkar í Chile, Deris SA, en 20% hlutur skilaði okkur á árinu 2,3 m€, sem er svipuð útkoma og árið áður. Meginhluti hagnaðarins stafaði af laxeldishluta félagsins, en hinn hluti starfseminnar snýst um veiðar og vinnslu botnfisktegunda (í samlagi við japanskt fyrirtæki). Afkoma þeirrar starfsemi hefur verið fremur slök enda hefur auðlindin, sem í er sótt , reynst vera fremur rýr. Á árinu var slátrað alls um 15.000 tonnum af Atlantshafslaxi og silungi. Fyrirtækið stendur mjög vel að vígi gagnvart tækifærum til frekari sóknar, sem við ættum að geta tekið góðan þátt í . – Það blasir þá við, að meginhluti hins frábæra hagnaðar HB Granda, þ.e.a.s. 37,3 m€, fékkst við veiðar, vinnslu og markaðssetningu fiskafurða, sem til stendur að leggja á nýtt veiðigjald (reyndar er meðtalinn fiskur, sem við höfum fengið að veiða í Barentshafi gegn því að greiða Rússum þóknun fyrir), en aðeins 3,7 m€, um 10%, stafa af hliðarstarfsemi okkar í Stofnfiski og Deris.
Við skulum næst virða fyrir okkur mynd af fjárhagslegri stöðu félagsins og þeim meginbreytingum sem urðu á árinu. Ég bregð þá upp mynd, sams konar þeirri sem ég hef notast við áður. Þar sést samandreginn efnahagsreikningur í upphafi og lok ársins. Fram kemur, að bókvirði rekstrarfjármuna hefur lækkað lítillega, um 1,5 m€. Fjárfesting í skipum og vinnslustöðvum í landi hefur sem sagt verið þetta miklu minni heldur en nam afskriftum. Meðal gagnlegra fjárfestinga má nefna öflugt kerfi til að kæla afla í skipinu Faxa svo og blástursfrystikerfi á Vopnafirði til að auka verðmæti makrílafurða. Eignaliðurinn, sem gnæfir uppúr, óefnislegar eignir, er svo til allur (að 98,8% hluta) til kominn vegna keyptra veiðiheimilda fyrr á árum. Þar munar vissulega mest um kvótann, sem fékkst við kaupin á HB & Co árið 2004. Liðurinn aðrar eignir er svo til allur til kominn vegna klakfisks, sem er í vörslum Stofnfisks svo og fjárfestingarinnar í Deris, Chile. Meðtaldar í þeim lið eru um 4 mUSD í auðseljanlegum verðbréfum, sem hafa verið keypt fyrir arð frá Deris. Breytingin á veltufjármunum endurspeglar eðlilega hækkun vörubirgða og útistandandi krafna við aukin umsvif og líka myndarlega aukningu handbærs fjár. -
Það sem vekur athygli eru áhrif hagnaðar ársins á eigið fé og skuldir félagsins. Aðeins rúmlega 2,0 m€ var varið til greiðslu arðs. Það tókst að greiða niður skuldir, svo að um munaði. Eiginfjárhlutfallið hækkaði á árinu úr 46,5% í 54,4% í árslok. Það getur verið fróðlegt að setja skuldir í búning hreinna skulda, sem er mismunur á samtölu skulda og samtölu veltufjármuna, á þeirri forsendu, að útistandandi kröfur og vörubirgðir séu að slíkum gæðum að jafna megi við handbært fé. Við sjáum þá, að hreinar skuldir hafa lækkað á árinu um 33,6 m€, þ.e. úr 112,8 m € í 79,3 m€, sem er lækkun um 30,0%. (Maður gæti velt því fyrir sér, hvað það tæki langan tíma, með sama gangi og í fyrra, að ná jöfnuði milli skulda og veltufjármuna., ef til fengist friður) Það tókst verr til í þessu efni árið árið á undan; þá lækkuðu hreinar skuldir um aðeins1 m€.
Það hefur vissulega verið ærin ástæða að kappkosta að lækka skuldir allt frá því að sú ríkisstjórn, sem komst til valda fyrir þrem árum, kynnti áform sín gagnvart sjávarútveginum. Það er augljóst, að með lagafrumvarpinu, sem nú liggur fyrir, er ætlunin að þjarma svo um munar að þessari atvinnugrein. Það er hætt við, að þessi nýbakaði ársreikningur, sem við erum hér að rýna í, gefi ekki alveg eins glögga/sanna mynd af stöðu fyrirtækisins eins og af er látið. Athyglin beinist sérstaklega að stærsta liðnum í eignakafla: eignfærðum aflaheimildum, 133,9 m€. Þetta matsvirði hefur sætt sérstöku virðisrýrnunarprófi, eins og skýrt er frá í ársreikningnum. Starfsmenn félagsins gerðu í febrúar ítarlegar spár um afkomu tveggja megindeilda fyrirtækisins, þ.e. fyrir botnfisk og uppsjávarfisk, og færðu til núvirðis á grundvelli 8,85% ávöxtunarkröfu. Sú krafa byggir á forsendu um, að fjármagn skiptist til helminga á milli lánsfjár og eigin fjár og beri lánsféð 5,20% vexti að teknu tilliti frádráttar 20% tekjuskatts, og að eigið fé kosti 12,5%. Matsvirðið stóðst prófið með ágætum. Í viðkomandi skýringu í ársreikningnum er nú í þriðja sinn gerður eftirfarandi fyrirvari við matið: “Við matið á virði aflaheimilda hefir ekki þótt fært að taka tillit til hugsanlegra áhrifa þess, að yfirlýst fyrirætlun ríkisstjórnar um innköllun og endurúhlutun aflaheimilda komi til framkvæmda”. - Ég vil skjóta því hér inn, að við gerð ársreiknings 2007 var álitið við hæfi að byggja virðisrýrnunarprófið á upplýsingum frá kvótamiðlun LÍÚ um opin kauptilboð eða verð í síðustu viðskiptum. Að því kom svo, að slíkum upplýsingum var ekki til að dreifa.
Ef eitthvað í líkingu við ákvæði frumvarpsins um sérstakt veiðigjald skyldi koma til framkvæmda, er við því að búast, að “núgildandi” matsvirði á aflaheimildum muni kolfalla á virðisrýrnunarprófi. Verð í viðskiptum með aflahlutdeildir mundi hrapa í hátt við afkomu útgerða. Mér skilst, að við ákvörðun á þeim fjármagnskostnaði, sem skuli tekið tillit til við útreikning sérstaks veiðigjalds skuli alls ekki ætlað fyrir neinni þátttöku í kostnaði við fjármögnun slíkrar eignar. Það fer varla á milli mála, að yfir vofir gríðarlegur skellur. Við algera niðurskrift aflaheimilda mundi eigið fé okkar skerðast um 133,9 m€. Nú hef ég séð haft eftir ráðherra, að til stæði að gera afskrift af slíkri eign frádráttarbæra við skattlagningu tekna (Mbl. 31/3 sl.) Ef nægar yrðu tekjurnar og skattprósentan 20 og allt gerðist á augabragði gætum við reiknað okkur niður í 107,1 m€ tap við brotthvarf þessarar eignar. Það er þó lægri fjárhæð en núverandi eigið fé, og munar rúmum 34 m€.
Um lagafrumvörpin tvö hef ég fátt að segja. Mér finnst þau í meginatriðum vera ósanngjörn og óskynsamleg, enda er ég í hópi þeirra, sem álíta að núverandi handhafar aflahlutdeilda styðjist við áunnin atvinnuréttindi, sem þeir verði ekki sviptir með þeim hætti, sem til stendur. - Það er með ólíkindum, hversu hátt skal reiða til höggs með sérstaka veiðigjaldinu og er þó ekki allt sem sýnist. Ég get ekki stillt mig um að benda á galla á skilgreiningu eða afmörkun þess stofns, sem sérstaka veiðigjaldið skal reist á (rentunnar svonefndu) að því sem varðar framleiðslutæki eins og fiskiskip. Í yfirlitum um hag sjávarútvegs, sem Þjóðhagsstofnun hafði veg og vanda af á sínum tíma beitti hún svokallaðri árgreiðsluaðferð (annuity) við mat á hæfilega reiknuðum kostnaði vegna fjármagnsþjónustu (vaxtakostnaðar) og virðisrýrnunar. Margir viðstaddra kynnu að hafa tekið peningalán af slíku tagi, þ.e. jafngreiðslulán, sem greitt er af með jafnri greiðslu, sem inniheldur afborgun plús vexti, ársfjórðungslega eða árlega. Þjóðhagsstofnun reiknaði með, að fjárhæð, sem nam 90% af vátryggingarverði skyldi afskrifa á 12 árum, en sá endingartími var upphaflega ákveðinn út frá meðalaldri skipa. Lengi mun hafa verið notast við 6% sem ávöxtunarkröfu fjármagns (sjá nánari lýsingu í þingskjali 359, 111. löggjafarþing 71, mál). Ef um er að ræða skip að vátryggingarmati 100 mkr mundi formúlan fyrir árgreiðslunni gefa eftirfarandi niðurstöðu, þar sem árgreiðsluþáttur fyrir 12 ár og 6% vexti er jafn 0,11928: 100 mkr. x 0,11928 = 11.928 þús.kr.
Samkvæmt frumvarpi um veiðigjöld (10. gr.) yrði árleg gjaldfærsla vegna skipa 8% af vátryggingarverði sem “ávöxtun rekstrarfjármuna” en ekkert kveðið á um afskriftir til móts við virðisrýrnun. Í dæminu okkar gerir þetta gjaldfærslu upp á 8 mkr. Þetta eru aðeins 2/3 hlutar þess, sem árgreiðsluaðferð gaf með notkun 6% vaxta. Höfundar stæra sig af rausn sinni með samanburði við 6% vexti, sem Hagstofan á að hafa verið farin að nota með sams konar hætti og þeir beita sínum 8%, en Hagstofan tók árið 2002 við því hlutverki Þjóðhagsstofnunar að taka saman yfirlit um rekstur sjávarútvegs. Í Hagtíðindum 16. febr. 2006 er gefin (nánari) lýsing á aðferðum. Þar er greint frá “svonefndri árgreiðsluaðferð”, sem felst í að reiknað er með “6% ávöxtun stofnfjár í stað afskrifta og vaxta af stofnfé”. Hvað stofnfé merkir þarna er mér ekki alveg ljóst, en ef stofnfé er mælt með vátryggingarverðmæti og Hagstofan hefur raunverulega verið farin að víkja frá aðferð Þjóðhagsstofnunar, þá er ekkert að því að bera saman tölurnar 8 og 6 um vexti. Með því að reikna 6% vexti á sama stofn og notaður var í dæminu áðan fæst auðvitað ekkert annað en árleg gjaldfærsla upp á 6 mkr., sem er aðeins helmingur þess, sem fæst út með réttnefndri árgreiðsluaðferð, sem Þjóðhagsstofnun beitti. Það er ósvífið af höfundum frumvarpsins að nota orðið árgreiðsla í tilvísunum til aðferðar Hagstofunnar eins og gert hvað eftir annað í frv. (t.d. bls.6 og 22). En meginmáli skiptir, að það er engu líkara en að höfundar álíti, að afskriftir af framleiðslutækjum séu algerlega óviðkomandi mati á afkomu fyrirtækja.

Góðir fundarmenn. Það styttist í, að ég ljúki þessari skýrslu minni. Þetta ár hefur farið vel af stað. Tíðarfarið suðvestanlands hefur þó háð nokkuð ísfisktogurum okkar. Fyrir um þrem vikum lauk frábærri loðnuvertíð, þeirri bestu, sem við höfum upplifað eftir að loðnukvóti okkar margfaldaðist árið 2004, þegar Tangi hf. og Svanur RE-45 ehf. gengu til liðs við okkur skömmu eftir kaupin á HB & Co. Við fengum úthlutað um 110 þús. tonnum. Af gengu tæp 1.600 tonn óveidd. Meginhluti aflans, 101.300 tonn fékkst á þessu ári, og þurfti að neyta aðstoðar annarra útgerða til að veiða um 9.000 tonn. Úr þessum afla fengust rúmlega 33.000 tonn af afurðum: þar af 9.000 tonn af frystri loðnu, 4.000 tonn af loðnuhrognum, rúmlega 15.200 þús. tonn af mjöli og rúml. 5.000 tonn af lýsi, allt í mjög háum gæðaflokki. Hér í húsinu heyrist hvíslað, að loðnuhrogn okkar geri 25% af heimsframleiðslunni í ár. Fjárhagsleg útkoma þessarar vertíðar gefur gott vegarnesti fyrir það sem eftir er ársins.– Síðan í fyrra, þegar svo til ekkert mátti veiða af kolmunna, hefur stofninn braggast og nú í vikunni eru 3 af loðnuskipum okkar mætt á miðin í námunda við Færeyjar til að veiða upp í tæplega 13 þús. tonna kvóta, sem okkur hefur verið úthlutað. Eitt síðasta verk Jóns Bjarnasonar sem ráðherra var svo að ákveða Íslendingum heimild til veiða á rúml. 145 þús. tonnum af makríl á árinu, en það er litlu minna en aflinn í fyrra. Af norsk-íslenskri síld fá okkar skip að veiða rúml. 16 þús tonn, sem er 16% lækkun frá því í fyrra. Þegar á heildina er litið sýnist vera vel séð fyrir veiðiheimildum uppsjávarfiskipa okkar í ár. Það má vera ljóst af þessari frásögn minni af aflaheimildum uppsjávarfiskiskipa, að fyrir utan loðnuna, mikilvægasta fiskinn, sem er svo til algerlega ætlaður íslenskum aðilum, þá erum við mjög háð úthlutun til okkar úr stofnum, sem við deilum með öðrum þjóðum, þ.e. kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld. Uppsjávarskipin er að vísu ekki lengur alveg ein um makrílinn. -
Samkvæmt nýlegri tilkynningu Fiskistofu var HB Grandi hinn 23. janúar sl. með 11,92% heildaraflahlutdeildar landsmanna (tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla), þ.e. aðeins 0,08% frá þakinu. Þetta kemur ekki á óvart eftir hina stóru loðnuúthlun.
Þá er loks komið að því að kynna þær tilllögur, sem stjórnin leggur fyrir fundinn. Lögð er fram tillaga um, að úthlutað verði arði sem er 40% af nafnvirði hlutafjár, en það nafnvirði varð til, eins og flestir vita, í áföngum, þegar verðgildi krónunnar var mun hærra en það er í dag. Þessi arður gerir um 11,3% af hagnaði ársins. Hann fjarlægir okkur frá því viðmiði um stefnu, sem einhverju sinni varð til, að uppsafnaður arður skyldi hverju sinnni vera sem næst helmingi af samanlögðum hagnaði liðinna ára. (sjá meðfylgjandi töflu). Þessi tillaga endurspeglar áherslu á að greiða niður skuldir og þá um leið viðleitni til að vera sem best undir búin að standast afleiðingar hugsanlegra ógætilegra aðgerða stjórnvalda í málefnum sjávarútvegs. Það hefur jafnframt verið litið til þess, að hluthafar, að meðtöldum þeim, sem eiga HB Granda í gegnum önnur félög, geta þurft að gjalda auðlegðarskatt af eign sinni, og ætti tillögð arðgreiðsla að nægja til að hluthafar kæmu skaðlausir greiðslulega frá hlutafjáreign sinni. Ég ætla að leyfa mér að bregða upp dæmi svipuðu því, sem ég tók í fyrra, en án þess að styðjast við glæru! Maður keypti í fyrra hlut að nanfverði 1.000 kr. á gengi, sem var jafnt lokagengi ársins, þ.e. 12,6, en það er gengið, sem öllu ræður um skattstofninn. Hann fær nú í vor 400 kr. arð; 20% arðsins fara strax í fjármagnstekjuskatt; það gera 80 kr. Svo ber honum að gjalda í áföngum hæst 2% auðlegðarskatt af metnu verðmæti hlutarins, þ.e. 12.600 kr.; það gerir 252 kr. Gjöldin verða þá samtals 332 kr. og eftir standa af arðgreiðslunni 68 kr., sem eru 17% af arðinum, en aðeins 0,54% í útgreidda ávöxtun af fjárfestingunni, sem hafði verið 12.600 kr. En hann þarf sem sagt ekki að borga með sér vegna þessa eignarhluta. Það er svo allt í óvissu um, hvað hann á eftir fá út úr þessari fjárfestingu sinni síðar meir.
Lokagengi ársins 2010 var 9,5. Gengið hefur þá hækkað um tæp 33% á einu ári. Eftir mikla deifð færðist smáfjör í viðskipti með bréf félagsins, eftir að Vopnafjarðarhreppur seldi stóran skammt í byrjun desembermánaðar. Á þriggja mánaða tímabilinu frá miðjum desember til miðs mars urðu 17 sinnum viðskipti með bréf HB Granda, á gengi sem var á milli 12,3 – 14,5. Í aðeins 4 tilvikum voru viðskiptin upp á 100.000 kr. að nafnverði eða hærra. Ég leyfi mér að segja, að það hafi lengi vakað fyrir stjórn félagsins að ráða hæfan aðila til annast markaðsvakt með hluti í félaginu, með því að standa daglega að lágmarksfjárhæð kaup- og sölutilboða á eignarhlutum í félaginu. Það hefur hins vegar ekki verið talið tímabært fyrr en komin væri miklu meiri festa í málefni sjávarútvegsins. Mér sýnist, að enn getir orðið dráttur á slíkri lausn. Það er sá veigamikli kostur við markaðssvakt, að forðst megi slys af því tagi, þegar hluthafi neyðist til að selja fyrirvaralítið fyrir fáránlega lágt verð eins og ég álít, að komið hafi fyrir.
Það verður svo lögð fram tillaga um heimild stjórnar til kaupa á eigin hlutum. Svipuð tillaga hefur verið samþykkt árlega nokkur undanfarin ár. - Engin ástæða hefur þótt vera til að gera breytingu á starfskjarastefnu félagsins, en fyrir henni er gerð grein á ársskýrslu félagsins. Þess vegna er ekki um að ræða neina tillögu um það efni.

Góðir fundarmenn. Ég hef þá lokið flutningi skýrslu minnar Fyrir hönd stjórnar félagsins færi ég öllum starfsmönnum félagsins kærar þakkir fyrir vel unnin störf.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir