FréttirSkrá á póstlista

13.04.2012

Kolmunninn er mjög dreifður

,,Við erum komnir með um 370 tonn af kolmunnna í þremur stuttum holum. Það stóð til að landa aflanum til vinnslu í Færeyjum en sú hugmynd var slegin af þegar í ljós kom að það er allt annað en auðvelt að fá löndunardag í Færeyjum um þessar mundir. Það má segja að það sé löndunarbið,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, er rætt var við hann um hádegisbilið í dag en skipið var þá að kolmunnaveiðum um 70 sjómílur suður af Suðurey, sem er syðst Færeyja.

Ingunn var komin á miðin í færeysku lögsögunni í gærmorgun en þangað var tæplega tveggja sólarhringa sigling frá Akranesi, þar sem skipið hefur legið eftir að loðnuvertíð lauk.

,,Það var bræla á leiðinni og strekkingur þegar við komum á veiðisvæðið en veðrið hefur verið að ganga niður. Það er ágætt núna og lítil ölduhæð en það þarf að hafa töluvert fyrir aflanum. Kolmunninn er mjög dreifður en nú getum við lengt holin, þar sem aflanum verður ekki landað til vinnslu, og stefnan er sett á ná fullfermi,“ segir Guðlaugur en þess má geta að burðargeta Ingunnar er allt að 2.000 tonn af fiski.

Fjölmörg skip eru nú á kolmunnaveiðisvæðinu en auk íslenskra skipa eru þar nú færeysk og rússnesk skip að veiðum. Í morgun komu Faxi RE og Lundey NS á miðin, eða eins og Guðlaugur orðaði það: ,,Grandahjörðin er mætt.“

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir