FréttirSkrá á póstlista

26.03.2012

Náðu að veiða 98,5% loðnukvótans

Loðnuveiðum skipa HB Granda lauk í lok síðustu viku og þegar upp var staðið voru ónýtt 1.583 tonn af kvótanum eða innan við 1,5% af úthlutuðu aflamarki upp á 110 þúsund tonn. Vinnslu lauk á Vopnafirði í síðustu viku en á Akranesi duga síðustu farmarnir fiskmjölsverksmiðjunni fram í miðja þessa viku.

Frysting á loðnu og loðnuhrognum gekk mjög vel á vertíðinni og alls tókst að frysta rúmlega 10.000 tonn af heilli loðnu og um 4.000 tonn af hrognum.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er nýliðin vertíð sú besta í fjölmörg ár en gott ástand loðnustofnsins gaf tilefni til þess að auka mjög verulega við heildarkvótann á milli ára. Til marks um gang mála má nefna að eftir áramót var alls landað 57.000 tonnum af loðnu á Vopnafirði sem er það mesta frá upphafi loðnuvinnslu á staðnum. Á Akranesi bárust 43.000 tonn á land eftir áramót en það er mesta aflamagn frá árinu 2004.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir