FréttirSkrá á póstlista

21.03.2012

Loðnan hrygnd og lítið eftir af kvótanum

Skip HB Granda eiga nú óveidd um 1.500 tonn af loðnukvótanum á vertíðinni og er vonast til þess að hægt verði að ná því magni í vikunni. Ingunn AK hefur lokið veiðum en hin skipin eru enn að og í nótt lágu þau í vari við Garðskaga vegna veðurs.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hafa aðstæður til veiða verið erfiðar síðustu dagana vegna leiðindasjólags. Loðnan er að mestu búin að hrygna og hefur legið á botninum og lítil færi gefið á sér.

,,Veiðivonin hefur verið frá því um hádegisbil og fram á kvöld en það eru ekki stórar torfur sem menn hafa verið að kasta á. Við erum að vona að úr þessu rætist þannig að kvótinn náist og það vantar ekki mikið upp á til þess að það takist,“ segir Vilhjálmur.

Staðan hjá skipum HB Granda er nú þannig að verið er að landa úr Ingunni á Akranesi en skipið kom þangað með 1.900 tonna afla í þessari síðustu veiðiferð á vertíðinni. Víking AK vantar lítið upp á að ná fullfermi, Faxi RE var kominn með um 750 tonna afla í gær og afli Lundeyjar NS var þá um 250 tonn. Þar sem loðnan er búin að hrygna fara síðustu farmarnir allir í framleiðslu á fiskmjöli og –lýsi. Þess má geta að þrátt fyrir að lítið sé eftir af úthlutuðum loðnukvóta hafa tíu skip verið á miðunum síðustu daga en þegar mest var stunduðu 25 skip loðnuveiðarnar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir