FréttirSkrá á póstlista

16.03.2012

Glæsilegur árangur í alþjóðlegri gæðavottun

Nú liggja fyrir niðurstöður árlegrar úttektar á starfsemi fiskiðjuvera HB Granda og verður ekki sagt annað en útkoman hafi verið glæsileg. Stuðst er við gæðavottunarkerfið International Food Standard (IFS) og samkvæmt úttektinni, sem fram fór í janúar sl., fengu fiskiðjuverin í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði öll einkunnina 98%.

IFS er staðall sem helstu smásöluaðilar innan Evrópusambandsins hafa komið sér saman um til þess að tryggja heilnæmi og öryggi matvæla sem og rekjanleika og áreiðanleika hvað varðar afhendingu og upplýsingar um viðkomandi matvæli. Samkvæmt IFS jafngildir einkunn yfir 95% því sem nefnt er ,,higher level“ en einkunn á bilinu 75-95% er það sem nefnt er ,,foundation level“. Ekkert fyrirtæki fær gæðavottun sé einkunnagjöfin undir 75%.

Að sögn Bergs Einarssonar, gæðastjóra í landvinnslu HB Granda, hefur landvinnslan í Reykjavík verið með IFS vottun frá árinu 2006. Fyrsta úttektin á starfseminni á Akranesi var gerð 2010 og hefur vinnslan þar því verið vottuð sl. tvö ár. Vinnslan á Vopnafirði var fyrst vottuð samkvæmt IFS staðlinum í fyrra og er þetta því önnur úttektin sem þar er gerð.

,,Í öllum þessum þremur vinnslum hefur verið unnið eftir sömu, samræmdu gæðahandbókinni. Allir starfsmenn hafa sýnt auknum gæðakröfum mikinn skilning og tekið fullann þátt í því að innleiða IFS gæðakerfið. Þá hefur verið mikil samvinna milli stjórnenda í öllum deildum varðandi gæðamálin en allt þetta er forsenda þess að jafn góður árangur náist og raun ber vitni,“ segir Bergur Einarsson.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, er að vonum ánægður með niðurstöðu úttektarinnar og í tölvubréfi til starfsmanna félagsins segir hann:

,,Ágæta samstarfsfólk,

Þetta er frábær árangur og glæsilega að verki staðið. Það er frábært hversu vel hefur tekist að samhæfa kerfin og einstaklega gleðilegt hve hátt allir staðirnir þrír skora í þessari úttekt.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi þessara úttekta og að vinnu við úttektirnar sjálfar. Þar er í rauninni átt við fyrirtækið allt, því það starf er vandfundið, sem ekki tengist gæðastarfinu á beinan eða óbeinan hátt.

Innilega til hamingju öll, vel gert!

Kær kveðja, Eggert Benedikt.“

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir