FréttirSkrá á póstlista

15.03.2012

Loðnufrysting gengur vel

Nú líður að lokum loðnuvertíðarinnar og eru sæmilegar horfur á því að mönnum takist að ná að veiða kvóta sína. Ómögulegt er að segja til um það með nokkurri nákvæmni hve lengi verður hægt að stunda veiðarnar en verði loðnan veiðanleg alla næstu viku og ef veður helst gott, eru horfur góðar.

Mikil vinna hefur verið við loðnuvinnslu og –bræðslu á Akranesi og Vopnafirði síðustu vikurnar en mest kapp hefur verið lagt á að vinna og frysta loðnuhrogn á báðum stöðum, auk frystingar á heilli loðnu.

Að sögn Gunnars Hermannssonar, sem hefur umsjón með loðnuvinnslu HB Granda á Akranesi, hefur vinnslan gengið mjög vel. Þrátt fyrir þráláta ótíð á miðunum hefur tekist að halda uppi fullum afköstum í vinnslunni og Gunnar segir að nú sé búið að hreinsa og frysta um 2.000 tonn af loðnuhrognum á staðnum. Hátt í 300 tonn af ferskum loðnuhrognum hafa svo verið flutt landleiðina til Vopnafjarðar til frystingar þar sem frystigetan þar er mun meiri en á Skaganum.

,,Það hafa komið einstaka farmar þar sem hlutfall hængs í aflanum hefur verið hátt en annars hefur þetta verið í góðu lagi. Hlutfall hrygnu í afla sem fékkst í gær var t.a.m. ríflega 50% og ástand hrognanna er eins og best verður á kosið. Hrognaþroskinn er allt að 95%,“ segir Gunnar Hermannsson.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, er einnig ánægður með gang mála. Hann tekur undir það með Gunnari að hlutfall hrygnu í afla skipanna hafi yfirleitt verið mjög gott. Framboðið af loðnu er sömuleiðis mjög gott.

,,Við erum nánast alltaf með skip í höfn. Ingunn AK var hér í gær og Vikingur AK kom í nótt þannig að það er ekkert lát á vinnslunni. Huginn VE hefur landað hér tvisvar og ef allt gengur að óskum ættum við að geta stundað loðnuvinnslu hér út næstu viku, að því gefnu að kvótinn klárist ekki fyrr eða þá að loðnan hættir að gefa sig til,“ segir Magnús Róbertsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir