FréttirSkrá á póstlista

14.03.2012

Ufsinn lætur bíða eftir sér

,,Við erum komnir á Selvogsbankann eftir að hafa verið í Skerjadjúpinu. Uppistaðan í veiðinni er karfi en ufsinn hefur ekki látið sjá sig eftir áramót. Hann kemur og fer en ég hef fulla trú að hann fari að skila sér inn í veiðina,“ segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE í samtali við heimasíðu HB Granda.

Þerney fór til veiða 17. febrúar sl. og að sögn Kristins var ferðinni fyrst heitið í Skerjadjúpið þar sem reynt var við djúpkarfa.

,,Skipið fer í slipp eftir þessa veiðiferð og því var lögð áhersla á að ná sem mestu af þeim djúpkarfa sem við megum veiða því sá fiskur veiðist lítið yfir sumarmánuðina,“ segir Kristinn en að hans sögn hefur veðráttan leikið aðalhlutverkið í veiðiferðinni.

,,Maður er sennilega orðinn of góðu vanur eftir tvo til þrjá afskaplega milda vetur en fyrr má nú rota en dauðrota. Það hefur verið stöðugur lægðagangur margar undanfarnar vikur og ríkjandi suðvestanátt með meira en 20 metrum á sekúndu og sjö til tíu metra ölduhæð. Það er svo stutt á milli lægðanna að sjórinn nær aldrei að jafna sig. Við vorum í stöðugum hrakningum á undan veðrinu hér fyrir sunnan land í síðustu viku og þegar sýnt var að það yrði ekkert veiðiveður næstu dagana þá fórum við á Vestfjarðamið. Þar fengum við þokkalegan ýsuafla í góðu veðri en það er með ýsuna eins og ufsann að það hefur lítið borið á henni upp á síðkastið,“ segir Kristinn en hann segir það ómetanlegt fyrir skipstjórnarmenn hve veðurfréttir eru orðnar miklu nákvæmari nú en fyrir nokkrum árum.

,,Sólarhringsspárnar eru orðnar mjög nákvæmar og það er hending ef þær ganga ekki eftir. Þá eru langtímaspárnar einnig orðnar miklu áreiðanlegri en hér áður fyrr og fyrir vikið er hægt að bregðast fyrr við og færa sig á önnur mið ef spárnar gefa tilefni til þess,“ segir Kristinn Gestsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir