FréttirSkrá á póstlista

13.03.2012

Djöfulleg veðrátta síðustu tvær vikurnar

,,Þessi loðnuvertíð hefur verið með fádæmum erfið hvað varðar tíðarfarið og þá einkum tvær síðustu tvær vikurnar. Það hefur verið djöfulleg veðrátta og mikið hefur reynt á skipin, veiðarfærin og áhafnirnar. Margir hafa farið illa út úr þessu. Við erum að kasta á stórar torfur í miklum sjó og sumir hafa lent í því að rífa næturnar mjög illa.“

Þetta segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, en skipið er nú á leið til Vopnafjarðar með um 1.600 til 1.700 tonna loðnuafla sem fékkst í Faxaflóanum. Von er á Ingunni til Vopnafjarðar í fyrramálið.

Það er ekki ofsögum sagt að tíðarfarið hafi torveldað veiðarnar og ekki bætir úr skák að loðnan hefur aðeins veiðst yfir daginn upp á síðkastið. Svigrúmið til veiða er því mun minna en ella og til marks um það hvernig veðráttan hefur leikið loðnuskipaflotann má nefna að ekki var veiðiveður eftir hádegi sl. laugardag og sunnudag.
Að sögn Guðlaugs voru flest loðnuskipin að veiðum í Faxaflóanum í gær en vart varð við nýja loðnugöngu þar sl. laugardag.

,,Það voru ein 12 skip að veiðum í Faxaflóanum og svo voru um sjö eða átta skip að veiða úr torfu sem fannst skammt vestan við Grindavík. Uppistaðan í aflanum hjá okkur til að byrja með var loðnuhængur eða um 70-80% en eftir að við færðum okkur innar, nær Hrauninu þá var hlutfallið milli hængs og hrygnu svo til jafnt,“ segir Guðlaugur.

Nú er verið að landa úr Lundey NS á Akranesi og ætti skipið að komast til veiða að nýju nú síðdegis. Faxi RE og Víkingur AK eru á miðunum og voru skipin komin með annars vegar 400 tonna afla og hins vegar 1.000 tonna afla nú í morgun. Þá er Huginn VE að veiðum fyrir HB Granda og að teknu tilliti til afla þessara skipa voru eftirstöðvar loðnukvóta félagsins um 10.500 tonn í morgun.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir