FréttirSkrá á póstlista

28.02.2012

Stutt í að hægt verði að hefja hrognafrystingu fyrir Japansmarkaðinn

Loðnuvinnsla á vegum HB Granda hefur gengið mjög vel upp á síðkastið og sl. sunnudag var byrjað að skera loðnuhrygnu og frysta hrogn á Akranesi og Vopnafirði. Þroski hrognanna úr fyrstu förmunum er um 75% og þótt hann sé ekki nægilegur til frystingar á hrognum fyrir Japansmarkaðinn er þar um að ræða góð, svokölluð iðnaðarhrogn. Hrognafyllingin í loðnunni fremst í göngunni við Reykjanes var um 23-24% í byrjun vikunnar og það er stutt í að hægt verði að frysta hrogn fyrir Japansmarkaðinn.

Að sögn Gunnars Hermannssonar, sem hefur umsjón með hrognavinnnslunni á Akranesi, hófst loðnuskurður og hrognataka sl. sunnudagsmorgun en þá var byrjað að vinna loðnu úr farmi Lundeyjar NS. Lundey fór miðin að nýju í gær og var komin til Akraness í gærkvöldi og nú er verið að vinna loðnuhrogn úr þeim farmi í vinnslunni. Ingunn AK er í höfn og býður löndunar.

Fremsta loðnugangan er nú komin fyrir Reykjanes og það er því stutt sigling fyrir skipin til Akraness. Löng sigling er hins vegar til Vopnafjarðar.

,,Þegar mestur kraftur er í veiðinni hér í Faxaflóanum og við Snæfellsnes höfum við sent það hrognamagn, sem við komumst ekki yfir að vinna, landleiðina til Vopnafjarðar og það verður örugglega engin breyting á í ár,“ segir Gunnar Hermannsson en samkvæmt upplýsingum hans starfa nú um 80 manns við hrognavinnsluna á Akranesi. Þar af eru um 30 til 40 manns úr bolfiskvinnslu HB Granda á staðnum.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, segir að þar hafi hrognataka og -frysting hafist á sunnudagskvöld en þá var unnið úr afla Faxa RE. Víkingur AK er á leiðinni til Vopnafjarðar með loðnu og von er á skipinu þangað í nótt.

,,Þetta lítur vel út. Við flokkum hrygnuna frá fyrir hrognatöku og -frystingu en hængurinn er frystur sér. Í þessum fyrsta farmi voru um 60-65% aflans hrygna,“ segir Magnús en samkvæmt upplýsingum hans starfa nú um 65 manns við vinnslu á loðnu í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir