FréttirSkrá á póstlista

23.02.2012

Hrognafrysting um miðja næstu viku?

Góður kraftur hefur verið í loðnuveiðum síðustu tvær vikur og nú styttist í að hrognafyllingin í loðnunni og þroski hrognanna gefi tilefni til að hægt verði að hefja hrognatöku og –frystingu. Samkvæmt upplýsingum frá uppsjávarsviði HB Granda gæti það orðið um miðja næstu viku. Í fyrra var byrjað að frysta loðnuhrogn á vegum HB Granda á Akranesi 16. febrúar en mat manna nú er að hrognavertíðin hefjist allt að tíu dögum síðar að þessu sinni.

Fremsta loðnugangan er nú komin langleiðina vestur að Reykjanesi og hrognafyllingin í loðnunni, sem lengst er gengin, mælist nú um 20%. Þroski hrognanna þykir hins vegar ekki nægilegur til þess að hægt sé að hefja hrognatöku og –frystingu fyrir Japansmarkaðinn.

Þegar séð var að erlend skip myndu ekki ná að nýta aflaheimildir sínar á vertíðinni innan íslenskrar lögsögu var aukið við úthlutun til íslenskra skipa. Samkvæmt þeirri viðbótarúthlutun er heildarkvóti skipa HB Granda á vertíðinni alls 109.683 tonn. Búið er að veiða rúmlega 70.000 tonn þannig að óveidd eru um 39.000 tonn. Veiðar og vinnsla hafa gengið vel og hafa hafa fiskmjölsverksmiðjurnar á Vopnafirði og Akranesi verið reknar á fullum afköstum. Hið sama má segja um loðnufrystinguna í fiskiðjuverinu á Vopnafirði en þar hafa þó orðið nokkur hlé af og til vegna átu í loðnunni.

Frá því sl. mánudag hafa skip HB Granda landað alls tæplega 4.000 tonnum af loðnu og von er á Ingunni AK til Vopnafjarðar seint í kvöld með um 1.350 tonna afla. Víkingur AK er á miðunum út af Eyrarbakka, Faxi RE er við Ingólfshöfða á leiðinni á miðin og Lundey NS var í höfn á Vopnafirði fyrr í dag þar sem verið var að ljúka við löndun.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir