FréttirSkrá á póstlista

14.02.2012

Hraðar afskipanir og lítið til í birgðum

Góðir markaðir eru fyrir loðnuafurðir um þessar mundir. Frystri loðnu var skipað út frá Vopnafirði í gær og með þeim farmi hafa þá alls 5.200 tonn af loðnuafurðum verið flutt út frá áramótum í sex útskipunum. Helstu áfangastaðir loðnuafurðanna nú í upphafi árs hafa verið Pétursborg, Klapeida og ýmsar Svartahafshafnir.

Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, er ánægður með gang mála á vertíðinni.
,,Loðnuvinnslan hefur gengið vel og loðnan er stór og góð. Afskipanir eru hraðar og birgðir litlar þrátt fyrir góðan gang í vinnslunni. Auk þess, sem að framan greinir, munum við skipa út um 10.000 tonnum af mjöli og 3.000 tonnum af lýsi á fyrsta ársfjórðungi ársins,“ segir Svavar og bendir á að nú þegar loðnuvertíðin er að komast á fullan skrið, eftir að loðnan tók að ganga upp á grunnið við suðaustanvert landið, skipti miklu máli að afskipanir séu í samræmi við framleiðsluna.

Flutningaskipið Silver Bergen, sem lestaði frysta loðnu á Vopnafirði í byrjun vikunnar var í Reykjavík um helgina þar sem skipað var út frystum afurðum frá Reykjavík og Akranesi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir