FréttirSkrá á póstlista

13.02.2012

Skip HB Granda búin að veiða helming úthlutaðs loðnukvóta

Í morgun voru skip HB Granda, auk tveggja skipa sem fengin hafa verið til að veiða af loðnukvóta félagsins, búin að veiða alls um 51.000 tonn af loðnu á vertíðinni en það samsvarar helmingi úthlutaðs kvóta upp á 102.000 tonn. Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarveiðisviðs HB Granda, segist reyndar eiga von á því að bætt verði við kvótann síðar þar sem sýnt þyki að Grænlendingar nái ekki að nýta veiðiheimildir sínar að fullu nú á vertíðinni.

Að sögn Vilhjálms eru skipin nú að veiðum með grunnnætur skammt undan Jökulsárlóni en það hefur verið mjög góð veiði eftir að loðnan gekk upp á grunnið og þegar viðrað hefur til veiða. Loðnan er stór og góð en töluverð áta er í henni og því hefur ekkert verið fryst af loðnu í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði frá því í miðri síðustu viku. Nú er um 165 sjómílna sigling frá miðunum til Vopnafjarðar en til Akraness, þar sem fiskmjölsverksmiðjan er nú keyrð á fullum afköstum, er um 250 sjómílna sigling.

Slæmt veður nú í lok síðasta árs og byrjun þessa hefur valdið því að töluvert hefur verið um frátafir frá veiðum og því hefur gengið hægar á úthlutaðan kvóta en ella hefði verið. Vilhjálmur segir að til þess að tryggja fulla nýtingu á vinnslugetunni á Vopnafirði og Akranesi hafi verið brugðið á það ráð í síðustu viku að fá Huginn VE og Hoffell SU til þess að taka sitt hvorn túrinn til veiða af kvóta HB Granda. Bæði skip lönduðu afla í síðustu viku, Huginn um 1.700 tonnum á Akranesi og Hoffell 1.220 tonnum á Vopnafirði.

,,Huginn mun taka einhverja túra fyrir okkur á næstunni. Skipið var í morgun að veiðum um tvær sjómílur undan Jökulsárlóni og verður aflanum úr veiðiferðinni landað á Akranesi. Ingunn AK verður á Vopnafirði í kvöld með um 1.700 tonn. Faxi RE kom á miðin um hádegisbilið í dag, tók tvö köst og er nú á leiðinni með fullfermi til Akraness. Lundey NS og Víkingur AK eru á leiðinni á miðin,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir