FréttirSkrá á póstlista

12.02.2012

Ágætis ástand á karfa- og ufsastofninum

,,Við vorum að karfa- og ufsaveiðum á Fjöllunum en nú á leiðinni norður á Halamið í leit að þorski. Ef að líkum lætur ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að ná skammtinum því mönnum ber saman um að það sé nóg af þorski mjög víða. Það er tilfallandi hvað veiðist með þorskinum og fyrir kemur að hægt er að hitta á ágætis ýsuafla.“

Þetta sagði Bjarni Einarsson er við náðum tali af honum en Bjarni er skipstjóri á Ásbirni RE í yfirstandandi veiðiferð. Farið var frá Reykjavík sl. þriðjudagskvöld til karfa- og ufsaveiða á hinum hefðbundnu miðum ísfisktogara HB Granda vestur og suður af Reykjanesi. Bjarni sagði að yfirleitt væru veiðiferðirnar fjórir til sex sólarhringar en að þessu sinni er stefnt að löndum nk. þriðjudag þannig veiðiferðin verður rétt tæp vika að þessu sinni.

Að sögn Bjarna var aflinn frekar tregur á Fjöllunum að þessu sinni. Leiðinda bræla hafi verið á miðunum og það megi eiginlega segja að þannig hafi það verið alveg frá áramótum.

,,Aflabrögðin að þessu sinni segja ekkert um ástand stofnanna. Það var fínasta veiði fyrir áramótin og ástand gullkarfa- og ufsastofnsins virðist vera með ágætum.“

Er rætt var við Bjarna var Ásbjörn á leiðinni norður á Vestfjarðamið, þar sem skipið hefur verið að veiðum um helgina, í vestan kalda eða í mun betra veðri en dagana á undan. Bjarni segir misjafnt hve mikið ísfisktogararnir megi veiða af þorski í hverri veiðiferð en yfirleitt sé skammturinn á milli 40 og 60 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir