FréttirSkrá á póstlista

08.02.2012

Fengu 1.300 tonn í fjórum köstum á Grímseyjarsundinu

Víkingur AK er nú á leið til Akraness eftir velheppnaða veiðiferð á loðnumiðin á á Grímseyjarsundi. Þar fengust um 1.300 tonn af góðri loðnu í fjórum köstum frá því í gærmorgun og fram til kvölds. Að sögn Hlyns Gunnarssonar stýrimanns er ekki annað hægt að segja en að þetta veiðisvæði hafi tekið vel á móti Víkingi því þegar skipið hefur verið á miðunum hefur fengist ágætur afli en þess á milli hefur veiðin tregast til muna.

Svo sem fram kom í frétt hér á heimasíðunni í síðustu viku þá fengu skipverjar á Víkingi fréttir af loðnugöngu á Grímseyjarsundi eftir þorrablót sem Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, sótti um fyrri helgi. Víkingur fór til veiða á svæðinu um miðja sl. viku og fékk þá 1.400 tonna afla. Núna var aflinn litlu minni.

,,Við höfum haft heppnina með okkur og hitt á loðnuna í þessum tveimur veiðiferðum. Það má segja að Grímseyjarsundið hafi bjargað okkur í því tíðarfari sem verið hefur nú í byrjun mánaðarins því það hefur bræla fyrir austan land þar sem skipin hafa verið að reyna fyrir sér,“ segir Hlynur en að hans sögn þá var sjólaust á Grímseyjarsundinu í gær þótt veðrið væri fráleitt gott.

,,Það var hífandi rok á köflum og alls ekki þægilegt að stunda veiðarnar en það bjargaði öllu að við vorum þarna í aflandsvindi og fyrir vikið náði ölduhæðin sér ekki upp,“ segir Hlynur en er haft var samband við hann var Víkingur staddur úti fyrir Súgandafirði. Að sögn Hlyns brældi töluvert í nótt sem leið enda náði vindhraðinn meira en 20 m/s á leiðinni.

Af hinum uppsjávarskipum HB Granda er það að frétta að Ingunn AK er á Grímseyjarsundi og Faxi RE er á leiðinni þangað frá Vopnafirði. Lundey NS er austan við Papey og að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra er skipið útbúið með grunnnót og þess er nú beðið að loðnan skili sér upp á grunnið. Það hefur hún ekki gert af neinum krafti fram að þessu en menn eru vongóðir um að þess verði ekki langt að bíða.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir