FréttirSkrá á póstlista

02.02.2012

Fréttu af loðnugöngu á Þorrablóti

,,Þetta tókst mjög vel að öllu leyti. Við hittum á loðnutorfuna nákvæmlega á þeim stað sem okkur hafði verið bent á og þurftum því ekki að eyða tíma í að leita. Við köstuðum fyrst síðdegis á þriðjudeginum og náðum að fylla um nóttina. Alls voru þetta rúmlega 1.400 tonn af stórri og góðri loðnu en þar sem það var töluvert af átu í henni þá hentaði hún ekki til frystingar.“

Þetta segir Guðmundur Hafsteinsson, fyrsti stýrimaður á Víkingi AK, en það vakti athygli að fyrr í vikunni fékk skipið fullfermi af loðnu á Grímseyjarsundi. Engin skip voru að loðnuveiðum eða við loðnuleit á þeim slóðum enda er veiðisvæðið nú út af Austfjörðum og loðnan er á hraðri göngu suður með kantinum. En hvers vegna reyndu menn fyrir sér á Grímseyjarsundi?

,,Það er saga að segja frá því. Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, var á Þorrablóti og þar hitti hann einhverja trillukarla sem sögðu honum að það væri stór loðnutorfa á Grímseyjarsundi. Þar sem að það spáði ekki góðu veðri fyrir austan þá ákváðum við að fara norður fyrir land frá Akranesi og kanna hvort þessar Þorrablótsfréttir ættu við rök að styðjast. Þegar við komum á svæðið þá höfðum við samband við trillukarlana og þeir sögðu okkur hvert ætti að fara. Og viti menn. Við hittum beint á torfuna og það tók ekki mjög langan tíma að fylla skipið,“ segir Guðmundur en hann segir að þegar þetta spurðist út hafi fleiri skip komið á svæðið en því miður hafi loðnan þá verið búin að dreifa sér.

,,Menn voru að hringja í okkur og spyrja hvernig við hefðum staðið að leitinni og hvaða svæði við hefðum kannað. Við þessu var bara eitt svar. Við leituðum ekkert en fórum beint á staðinn, sem okkur hafði verið bent á, og fundum torfuna,“ segir Guðmundur en hann upplýsir að í sýnum, sem tekin voru um borð, hafi mælst um 47 stykki af loðnu í kílóinu og hlutfall hrygnu hafi verið mjög hátt eða allt að 67%.

,,Þessi loðna hefði hentað mjög vel í frystingu ef það hefði ekki verið áta í henni. Okkar skoðun er sú að þessi loðna þarna fyrir norðan hafi verið lengra gengin hvað varðar hrognafyllingu en sú sem nú er verið að veiða út af Austfjörðum. Venjulega er það loðnan, sem er fremst í göngunni, sem er með mestu hrognafyllinguna en í þessu tilviki virðist því hafa verið öfugt farið,“ segir Guðmundur.

Er rætt var við Guðmund var Víkingur farinn frá Vopnafirði áleiðis á miðin út af sunnanverðum Austfjörðum. Veðurspáin fyrir veiðisvæðið er ágæt. Þetta er fjórða veiðiferð skipsins á vertíðinni en Víkingur hefur undanfarin ár aðeins verið nýttur til veiða á álagstímum. Skipið er aðeins útbúið til nótaveiða og til þess að hægt sé að ná árangri á þeim veiðum má loðnan ekki halda sig á meira dýpi en 50 til 60 föðmum. Nótin er því kjörveiðarfæri á loðnuveiðum eftir að loðnan hefur skilað sér upp á grunnin út af Suð-Austurlandi og út vertíðina.


Nýjustu fréttir

Allar fréttir