FréttirSkrá á póstlista

31.01.2012

Vertíðin veltur á veðráttunni

,,Það eina, sem við biðjum um núna, er gott veður. Það veltur allt á veðráttunni. Ef hún verður góð þá náum við loðnukvótanum en það er alveg ljóst að ef veðráttan verður eins og á vertíðinni í fyrra þá er ekki fræðilegur möguleiki að kvótinn náist. Og það gæti vantað mikið upp á það,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK en hann er nú með skipið að veiðum í leiðinda brælu um 70 sjómílur austur af Norðfirði.

Guðlaugur, sem er einn af reyndustu uppsjávarveiðiskipstjórum landsmanna, segir að það hafi að sjálfsögðu verið frábært að aukið hafi verið hressilega við loðnukvótann í lok sl. viku í kjölfar rannsókna Hafrannsóknastofnunar.

,,Menn voru búnir að gera sér vonir um að þetta yrði niðurstaðan. Það er nóg af loðnu en munurinn á ástandinu nú og oft áður er aðallega sá að loðnan kemur mjög dreifð inn að landinu. Hún er hins vegar á sinni venjulegu gönguleið suður með kantinum hér úti af Austfjörðum og ef að líkum lætur mun hún skila sér af krafti upp á grunni hér fyrir sunnan okkur áður en langt um líður. Það er töluverð ferð á loðnugöngunni en vegna brælunnar, sem nú er á miðunum, er ákaflega erfitt að meta aðstæður,“ segir Guðlaugur en hann upplýsir að Víkingur AK sé nú að veiðum fyrir norðan landið og hafi fengið þar 200 tonn af loðnu. Það bendi til þess að búast megi við frekari loðnugöngum suður með austurströndinni. Af öðrum skipum HB Granda er hins vegar það að frétta að Faxi RE er á sömu slóðum og Ingunn en Lundey NS er í höfn á Vopnafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir