FréttirSkrá á póstlista

27.01.2012

Loðnukvóti HB Granda gæti orðið rúmlega 100 þúsund tonn

Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildarafli á loðnu á yfirstandandi vertíð verði 760 þúsund tonn. Þetta er ljóst eftir að niðurstöður mælinga á stærð loðnustofnsins nú í janúar lágu fyrir og voru kynntar í gær. Fari ráðherra að tillögu stofnunarinnar er ljóst að heildarloðnukvóti íslenskra skipa á vertíðinni verður um 590 þúsund tonn og áætlað aflaverðmæti gæti orðið allt að 30 milljarðar króna.

,,Þetta eru góðar fréttir. Hlutdeild HB Granda í heildaraflamarki Íslendinga á loðnu nemur 18,6% og verði farið eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar þá mun loðnukvóti skipa félagsins losa 100 þúsund tonn á yfirstandandi vertíð," segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, en að hans sögn hafa verið miklar sveiflur í loðnuveiðunum undanfarin ár. Þegar gengið var frá samruna Granda hf., HB hf., og Tanga hf. undir merkjum HB Granda, var loðnukvóti hins sameinaða félags veturinn á eftir (2004/05) um 140 þúsund tonn og aflinn um 121 þúsund tonn. Fjórum árum síðar var loðnukvótinn kominn niður í rúm 3.000 tonn (veturinn 2008/09) en síðan hefur leiðin legið upp á við að nýju.

Að sögn Vilhjálms hefur það mikla þýðingu fyrir félagið og starfsmenn uppsjávardeildar til sjós og lands að loðnuvertíðin verði góð.
,,Tíðarfar og göngumynstur loðnunnar mun nú ráða mestu um árangurinn á vertíðinni en það skiptir ekki síður máli að nú liggur fyrir að veiðar hafa ekki gengið of nærri stofninum, heldur hefur hann verið skynsamlega nýttur og fengið færi til að vaxa upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið í undanfarin ár," segir Vilhjálmur en samkvæmt upplýsingum hans eru markaðir fyrir loðnuafurðir almennt góðir. Verð fyrir mjöl og lýsi hefur verið hátt og viðunandi verð hefur fengist fyrir frystar afurðir.

Loðnuafli skipa HB Granda frá áramótum nemur nú rúmlega 22.000 tonnum en afli þeirra fyrir áramót var 4.200 tonn. Það er því ljóst að ærið verkefni er framundan hjá skipum félagsins, fari svo að ráðherra ákveði að fara að tillögum fiskifræðinga.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir