FréttirSkrá á póstlista

17.01.2012

Allt klárt á Akranesi fyrir loðnuvertíðina

Ingunn AK er nú á leið til Akraness með fullfermi af loðnu eða um 2.000 tonn. Búist er við því að skipið komi til hafnar aðra nótt og í kjölfarið getur loðnubræðsla hafist. Þetta verður fyrsta loðnan sem Skagamenn fá frá því á vertíðinni í fyrra en síðast var tekið á móti loðnu hjá verksmiðjunni á Akranesi í marsmánuði í fyrra.

Að sögn Guðmundar Hannessonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Akranesi, er allt klárt fyrir loðnuvertíðina en unnið verður í verksmiðjunni á tveimur 12 tíma vöktum á meðan vertíðinni stendur. Um 34-35 tíma sigling er frá miðunum norðaustur af Langanesi til Akraness og lagði Ingunn af stað áleiðis til heimahafnar nú á tíunda tímanum í morgun.

,,Við fengum fyrstu loðnuna 25. janúar í fyrra þannig að vertíðin hjá okkur hefst nú um viku fyrr en þá,“ segir Guðmundur en að hans sögn var alls tekið á móti um 30.000 tonnum af uppsjávarfiski til bræðslu hjá verksmiðjunni á árinu 2011.

,,Við fengum tvo slatta af gulldeplu um miðjan janúar í fyrra. Síðan tókum við á móti um 7.000 tonnum af loðnu áður en hrognatakan hófst en eftir það bræddum við aðeins þá loðnu, sem ekki nýttist til hrognatöku sem og þann afskurð sem féll til við hrognavinnsluna. Alls voru það rúmlega 20.000 tonn,“ segir Guðmundur Hannesson.
Í gær voru loðnuskipin að togveiðum um 90 sjómílur norðaustur af Langanesi en þar hefur verið ágæt veiði eftir að loksins gaf til veiða í lok síðustu viku. Þær fréttir berast nú af miðunum að loðnan sé farin að veiðast í nót og munu norsk og grænlensk skip hafa fengið afla í það veiðarfæri í fyrrinótt um 15 mílum sunnan við togveiðiskipin.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir