FréttirSkrá á póstlista

16.01.2012

Aukin áhersla lögð á markaðsmálin á nýju ári

Ákveðið hefur verið að efla markaðsstarf HB Granda og fjölga starfsmönnum markaðsdeildar. Að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra félagsins, hafa níu manns starfað við deildina frá því að HB Grandi tók yfir markaðssetningu eigin afurða en þeim verður nú fjölgað um þrjá.

,,Við leitum að sölustjóra, markaðsfulltrúa og sérfræðingi á sviði markaðsrannsókna. Það er nýlunda hjá okkur að stofna til sérstaks verkefnis um markaðsrannsóknir en markmiðið er að afla enn frekari þekkingar á núverandi mörkuðum og jafnframt að greina bestu markaðstækifærin í því skyni að hámarka verðmæti afurða félagsins,“ segir Svavar Svavarsson.

Þess má geta að umsóknarfrestur um framangreind störf er til 22. janúar nk. og skal umsóknum skilað til Capacent Ráðninga.

Við þetta er að bæta að nú um áramótin lét Yutaka Albert Akasof, sem verið hefur svæðisstjóri fyrir Asíumarkaðinn, af störfum hjá HB Granda. Jón Helgason tekur við því starfi auk þess sem hann mun eftir sem áður vera sölustjóri Austur-Evrópu markaða. Þá var Daníel Niddam ráðinn í starf sölustjóra í upphafi ársins og verður hann svæðisstjóri fyrir markaði í Suður-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir