FréttirSkrá á póstlista

30.12.2011

Hlé í landvinnslu nýtt til starfsfræðslu

Hlé var gert á landvinnslu HB Granda fyrir jól og hefst vinnsla ekki að nýju fyrr en eftir áramót. Líkt og undanfarin ár hefur vinnsluhléð verið nýtt til námskeiðshalds og að þessu sinni tóku 25 nýir starfsmenn í fiskiðjuverinu á Norðurgarði í Reykjavík þátt í ,,Starfsfræðslunámskeiði fiskvinnslunnar“ en slík námskeið hafa verið haldin allt frá árinu 1986. Sambærilegt námskeið fyrir starfsfólk í fiskvinnslunni á Akranesi verður síðan haldið eftir áramótin.

Að sögn Bergs Einarssonar, gæðastjóra HB Granda, fór námskeiðið fram á íslensku og ensku að þessu sinni. Um er að ræða tíu, fjögurra klukkustunda löng námskeið. Farið er yfir eftirfarandi efni:

- Fiskurinn – auðlind í hafinu
- Vinnuaðstaða og líkamsbeiting
- Örygggi á vinnustöðum
- Hreinlæti
- Atvinnulífið – starfsfólkið og launakerfin
- Samstarf og samskipti á vinnustað
- Sjálfstyrking
- Fiskvinnslan – Gæðastjórnun
- Afurðir og markaðir
- Sjávarútvegurinn og umhverfismál
- Samskipti þvert á menningarheima.
Bergur segir að auk starfsfræðslunámskeiðanna hafi allir starfsmenn í frystihúsunum, 170 að tölu, farið á skyndihjálparnámskeið í ár. Þeir hafi sömuleiðis allir farið á námskeið á vegum Matvælaskóla Sýnis um meðhöndlun, hreinlæti og umgengni matvæla á árinu.

,,Þá má nefna að flestir stjórnendur og lykilstarfsmenn HB Granda fóru á stjórnendanámskeið hjá Dale Carnegie í ár og alls tóku 52 starfsmenn þátt í því námskeiði. Mat okkar er að þetta muni skila okkur betri stjórnendum, öflugari einstaklingum og gera okkur hæfari til að vinna saman í framtíðinni,“ segir Bergur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir