FréttirSkrá á póstlista

08.12.2011

Gott ástand í hafinu og fiskurinn er vel haldinn

,,Við höfum verið á Halasvæðinu undanfarna daga og ástandið í hafinu er mjög gott. Það er mikið af loðnu á svæðinu og fiskurinn er vel haldinn og reyndar óvenjulega stór. Til marks um það má nefna að ufsi, sem við fengum um daginn, var það stór að það þurfti að handflaka um helming aflans vegna þess á flökunarvélarnar réðu ekki við svo stóran fisk.“

Þetta segir Trausti Egilsson, skipstjóri á Örfirisey RE, en þegar rætt var við hann var ferðinni heitið í áttina að Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi til þess að komast í var fyrir veðri og vindum.
,,Það er kolbrjálað veður og stórhríð. Ekkert veiðiveður og því dugar ekkert annað en að leita vars og bíða eftir því að veðrið gangi niður,“ segir Trausti.

Það er gömul saga og ný að kvótakerfið setur útgerðum togaranna strangar skorður. Þorskkvóti Örfiriseyjar er t.a.m. ekki nema um 900 tonn og Trausti segir að auðvelt væri að veiða upp í þann kvóta á skömmum tíma.

,,Þetta er alltaf sami línudansinn. Þegar við förum hingað norður þá er markmiðið að komast í blandaðan afla, spara þorskinn og reyna að fá sem mest af ufsa og ýsu. Því miður þá virðast þessar fisktegundir kjósa að synda saman og það er því eins gott að fara varlega við veiðarnar.“

Að sögn Trausta hefur árið verið gott og hann segir lífríkið í hafinu vita á gott hvað varðar vöxt og viðgang fiskstofna.

,,Það er helst að erfiðlega gangi að veiða ýsuna en allt annað er í góðu lagi og meira en það. Karfastofnarnir eru t.d. mun sterkari en kvótinn gefur tilefni til að ætla. Nú eru skipin að fá stór karfahol hér á Halanum sem er nokkuð sem fæstir hefðu trúað fyrir ekki svo mörgum árum. Hitastig sjávar hefur hækkað og útbreiðsla fiskstofna tekur mið af því. Nærtækasta dæmið er e.t.v. aukin skötuselsveiði hér fyrir norðan. Sjálfur er ég alinn upp í Súgandafirði og man vel að það þóttu sérstök tíðindi þegar einn sjómaðurinn í plássinu kom með skötusel að landi um eða upp úr miðri síðustu öld. Sá fiskur þótti svo merkilegur að hann var stoppaður upp og er nú til sýnis á Suðureyri,“ segir Trausti en að hans sögn þá sést greinilega á hitamælum að sjávarhiti hefur hækkað á liðnum árum.

,,Einnar gráðu hækkun er stórmál, jafnvel þótt hún eigi sér stað á 20 til 30 árum, hvað þá skemmri tíma. Við vitum allir að hinar ýmsu fisktegundir eiga sitt kjörhitastig. Grálúðan er gott dæmi um það. Í fyrra var mjög léleg grálúðuveiði á hinum hefðbundnu miðum hér úti af Vestfjörðum þar til vikuna fyrir jól og síðan var fínasta veiði í janúar. Nú verður grálúðu meira vart en áður fyrir norðan landið og það ræðst af sjávarhitanum. Hið sama má segja um gullkarfa og djúpkarfa. Útbreiðslan er mun meiri en fiskifræðingar telja og mín skoðun er sú að það mætti auka verulega við kvótann í báðum tegundum,“ segir Trausti Egilsson en hann reiknar með því að klára túrinn 22. desember nk.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir