FréttirSkrá á póstlista

07.12.2011

Góðri síldarvertíð lokið

Síldarvertíðinni lauk formlega hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði í síðustu viku eftir að búið var að flaka og frysta afla sem Lundey NS kom með að landi fyrir réttri viku síðan. Alls voru fryst 11.250 tonn af síldarsamflökum á Vopnafirði á þessu ári en til samanburðar má nefna að í fyrra nam magnið tæplega 12.700 tonnum.

Vertíðin á Vopnafirði hófst að þessu sinni þann 11. júní sl. en þá var byrjað að vinna síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og makríl í uppsjávarfrystihúsinu. Vinnsla á íslenskri sumargotssíld hófst síðan 6. nóvember og stóð fram til 30. Nóvember. Að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra hjá HB Granda, voru gæði síldarinnar með ágætum. Úthald skipanna var stutt í flestum veiðiferðum enda skammt að sækja á miðin frá Vopnafirði stóran hluta vertíðarinnar.

,,Sala afurða hefur gengið vel. Eftirspurn hefur verið góð og afurðaverð hækkað verulega milli ára. Allri framleiðslu ársins hefur verið ráðstafað og stefnt er að því að afhenda síðustu tonnin á næstu tveimur til þremur vikum,“ segir Svavar Svavarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir