FréttirSkrá á póstlista

28.11.2011

Síldveiðum lokið að öllu óbreyttu

Lundey NS er væntanleg til Vopnafjarðar í fyrramálið með um 850 tonna síldarafla sem fékkst í einu kasti á Breiðasundi, skammt innan við Stykkishólm, í gærdag. Þar með var aflamarki skipa HB Granda á íslensku sumargotssíldinni náð á þessari vertíð en síldarafli skipanna nemur nú rúmlega 5.000 tonnum. Þetta þýðir að síldveiðunum á vertíðinni er lokið að öllu óbreyttu.

Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey NS, voru aðstæður í Breiðasundinu mjög góðar. Gott veður og þar sem hægt var að kasta nótinni á liggjandanum hafði straumur engin áhrif á kastið.

,,Það er allt annað og betra að athafna sig á Breiðasundi en á hinum sundunum hér í nágrenninu. Það er meira rými og styttra út á 20 faðma dýpi en svo mikið dýpi er vandfundið annars staðar þar sem við höfum verið að veiðum,“ segir Arnþór en hann upplýsir að aðeins hafi tekið nokkrar mínútur að draga nótina eftir að búið var að loka henni.

,,Þetta var reyndar miklu stærra kast en þessi 850 tonn segja til um en sem betur fer var Vilhelm Þorsteinsson EA nálægur og skipverjar á honum gátu nýtt aflann með því að dæla úr nótinni hjá okkur.“

Arnþór segir að síldin, sem fékkst í gær, sé stór og góð.

,,Samkvæmt prufum, sem teknar voru, var meðalvigtin 360 grömm og ef það á við um allan aflann þá er þetta stærsta síldin sem við höfum fengið á vertíðinni.“

Nóg virðist vera af síld í Breiðafirði og veiðarnar hafa gengið vel. Ingunn AK fékk þar 1.000 tonna kast í síðustu viku og var lokið við að landa þeim afla á Vopnafirði sl. föstudag. Þá var lokið við að landa um 500 tonnum af síld úr Faxa RE í gær og með farmi Lundeyjar ætti því að vera hægt að halda vinnslunni gangandi fram eftir vikunni. Allur síldaraflinn hefur farið til vinnslu. Síldin er flökuð í svokölluð samflök og fryst fyrir erlendan markað.

Auk síldveiðanna hafa skip HB Granda verið að loðnuveiðum og Ingunn og Faxi bíða þess á Vopnafirði að komast á miðin. Spáð er brælu á miðunum næstu tvo dagana.

,,Það er skítaspá framundan,“ segir Arnór Hjörleifsson. ,,Við vorum síðast að loðnuveiðum í grænlensku lögsögunni, þar sem stóra loðnan hefur haldið sig, en þar var þá lítið að sjá. Hins vegar lóðaði mjög víða á smáloðnu norður af Hala og þar sigldum við í gegnum 13 mílna langan flekk af þessari smáu loðnu. Börkur NK tók eitt kast en í ljós kom að það voru um eða yfir 100 stykki í kílóinu og því var sjálfgefið að leita fyrir sér á öðrum slóðum.“

Skip HB Granda hafa það sem af er loðnuvertíðinni veitt um 4.200 tonn af loðnu og því eru eftir um 30.000 tonn af byrjunarkvóta skipanna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir