FréttirSkrá á póstlista

18.11.2011

Loðnu- og síldarfrysting gengur vel

Ágætur gangur hefur verið í frystingu á loðnu og síld í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði upp á síðkastið. Ingunn AK og Lundey NS hafa verið að loðnuveiðum og Faxi RE á síldveiðum í Breiðafirði og hefur aflanum verið landað til vinnslu á Vopnafirði.

,,Það er fyrst nú síðustu dagana að kraftur hefur færst í frystingu á loðnu. Við flokkum stærstu loðnuna frá og frystum en þar er um að ræða loðnu af stærðinni 30 til 40 stykki í kílóinu. Það er trúlega um þriðjungur loðnuaflans sem fellur undir þá skilgreiningu,“ segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði.

Ingunn er nú í höfn á Vopnafirði og er vinnslu á afla hennar að ljúka en hún var með um 750 tonn. Lundey er síðan mætt með um 1.050 tonna loðnuafla og verður væntanlega unnið úr honum næstu tvo sólarhinga. Að sögn Magnúsar er loðnuafli skipa HB Granda nú orðinn um 3.500 tonn á vertíðinni.

Lokið var við að landa síld úr Faxa á Vopnafirði í gær og nýttist allur aflinn, 680 tonn, í frystar afurðir sem námu um 325 tonnum. Magnús segir síldina vera mjög góða til vinnslu en hún er flökuð í svokölluð samflök og fryst þannig.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir