FréttirSkrá á póstlista

14.11.2011

Loksins viðraði til loðnuveiða

Eftir þrálátar brælur fyrir norðan landið allt frá því í byrjun mánaðarins, viðraði loks til loðnuveiða um helgina. Lundey NS fékk um 400 tonna afla á aðfararnótt laugardagsins og Ingunn AK var þá með um 140 til 150 tonna afla. Afla Lundeyjar var landað á Vopnafirði í gær og er skipið nú á leiðinni á miðin í Grænlandssundi og verður þar í kvöld. Áhöfnin á Ingunni fékk rúmlega 400 tonna afla í nótt og er skipið því komið með um 600 tonna afla.

,,Við erum í grænlensku lögsögunni, norður af Hornbjargi og fengum þennan afla í sex köstum. Það eru óttalegar ryklóðningar hér á veiðislóðinni en loðnan kemur upp á um 40 faðma dýpi eftir að skyggja tekur og þá er mögulegt að eiga við hana með nótinni. Á daginn fer hún svo niður fyrir 150 faðma dýpi og það er því lítið annað að gera en bíða eftir því að það dimmi að nýju," sagði Róbert Axelsson, sem er skipstjóri á Ingunni í veiðiferðinni, er við náðum tali af honum.

Að sögn Róberts eru veðurhorfur á miðunum nú ágætar og hann vonast til þess að loðnan þétti sig næstu daga.

,,Það var fínasta veður í nótt en það var tunglbjart og það gæti skýrt það að að loðnan grynnkaði ekki meira á sér en raun bar vitni,“ segir Róbert.
Ingunn hefur verið að loðnuveiðum frá 4. nóvember sl. Framan af fór töluverður tími í leit norður af landinu og veiðisvæðið í Grænlandssundi var þá lokað vegna rekíss. Þegar ísinn hopaði var ekki hægt að stunda veiðarnar á svæðinu vegna óveðurs og veðrið gekk ekki niður fyrr en um liðna helgi.

,,Það eru búnar að vera endalausar brælur en maður leyfir sér að vona að nú sé a.m.k. stund milli stríða,“ segir Róbert Axelsson.

Loðnan, sem verið er að veiða í Grænlandssundinu, er af góðri stærð og til marks um það má nefna að hluti af afla Lundeyjar NS fór í frystingu hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði. Fryst var í flokkinn 30-40 stykki í kílóinu en það verður að teljast stór og góð loðna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir