FréttirSkrá á póstlista

01.11.2011

Þrálátar brælur og hafís torvelda loðnuveiðar

Loðnuveiðar hafa legið niðri frá því í síðustu viku vegna mjög erfiðs tíðarfars og hafíss í Grænlandssundi. Svo virðist sem að stóra loðnan haldi sig á þessum slóðum en lítið hefur orðið vart við annað en smáloðnu á hafsvæðinu úti fyrir Norðurlandi. Víkingur AK kom með tæplega 200 tonna loðnuafla til Vopnafjarðar sl. miðvikudag og var þetta þriðja veiðiferð skipsins á vertíðinni. Í hinum fyrri fengust um 1.500 tonn af loðnu.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hafa aðstæður til veiða verið vægast sagt erfiðar. Svo til látlaus norðan- og norðaustanbræla í Grænlandssundi og ekki bætti úr skák að hafís lagðist síðan yfir veiðisvæðið. Vilhjálmur segir að Víkingur hafi leitað að loðnu á Kolbeyinseyjarhryggnum á leið austur til Vopnafjarðar en sú leit bar ekki árangur.

Víkingur er nú í höfn á Akranesi og munu Ingunn AK og Lundey NS fara til veiða um leið og veðrið gengur niður og hafísinn hopar. Veðurspár benda til þess að það verði í fyrsta lagi í lok þessarar viku. HB Grandi hefur einnig yfir að ráða tæplega 1.000 tonna kvóta á íslenskri sumargotssíld og mun Faxi RE fara til síldveiða í Breiðafirði í byrjun nóvembermánaðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir