FréttirSkrá á póstlista

17.10.2011

Vinnslumet á Vopnafirði þrátt fyrir aflasamdrátt

Alls voru fryst um 20.400 tonn af síldar- og makrílafurðum í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði á vertíðinni en vinnslu lauk nú um helgina. Þetta er tæplega 27% aukning frá vertíðinni í fyrra og verður það að teljast góður árangur, ekki síst í ljósi þess að síldar- og makrílafli skipa félagsins dróst saman um tæplega 15% milli ára. Öllum aflanum var að þessu sinni landað til vinnslu.

Þetta kemur fram í samantekt uppsjávarsviðs HB Granda og að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar deildarstjóra voru nú fryst um 11.500 tonn af makrílafurðum og um 8.900 tonn af síldarafurðum. Mikil aukning varð í vinnslu á makríl milli ára því í fyrra voru fryst 4.800 tonn af makríl á Vopnafirði. Vinnsla á norsk-íslenskri síld dróst hins vegar saman um 2.400 tonn og er skýringanna að leita í því að síldarkvótinn var mun minni í ár en í fyrra. Aflasamdráttur skipa HB Granda á síldveiðunum í ár nam t.a.m. um 7.500 tonnum.

Heildaraflinn á nýliðinni vertíð nam um 37.200 tonnum af síld og makríl en til samanburðar má nefna að aflamagnið í fyrra var tæplega 43.700 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir