FréttirSkrá á póstlista

15.10.2011

Veiðum á norsk-íslensku síldinni og makríl lokið

Lundey NS kom til hafnar á Vopnafirði seint í gærkvöldi með um 550 tonna síldarafla. Lundey var að veiðum með Ingunni AK í veiðiferðinni en með þessum afla er kvóta HB Granda á norsk-íslenskri síld náð á þessari vertíð. Sömuleiðis er búið að veiða makrílkvóta félagsins.

Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey, segir að aukaafli hafi verið óverulegur að þessu sinni. Smávegis hafi borið á kolmunna en makríll hafi varla sést.

,,Við fengum þennan afla austur undir 10°V eða norðaustan við Rauða Torgið en þaðan er um 12 tíma sigling til Vopnafjarðar. Við náðum að klára kvótann í gærmorgun og héldum af stað til hafnar laust fyrir hádegið," segir Arnþór en að hans sögn er síldin mjög stór og falleg. Í sýnum, sem tekin voru um borð, hafi meðalvigtin á síldinni verið rúmlega 400 grömm.
Arnþór segir að síld- og makrílveiðarnar hafi gengið vel í sumar og í haust en leiðinda tíðarfar hafi hins vegar sett strik í reikninginn allt frá síðustu mánaðamótum.

,,Það er búið að vera skelfilega leiðinlegt veður allan októbermánuð. Það hefur verið mjög hvasst og því erfitt að stunda þessar tveggja skipa veiðar,“ segir Arnþór Hjörleifsson en svo sem komið hefur fram þá hafa togveiðarnar nú í lok vertíðarinnar farið þannig fram að tvö skip hafa togað saman með eitt stórt troll.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er stefnt að því að Lundey fari til loðnuveiða í lok næstu viku en eitt skip félagsins, Víkingur AK, hefur verið við loðnuleit og –veiðar frá því um sl. mánaðamót eða frá því að íslensk skip máttu hefja loðnuveiðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir