FréttirSkrá á póstlista

08.10.2011

Víkingur AK með fyrsta loðnuaflann á vertíðinni

Víkingur AK er nú á leið til Vopnafjarðar með um 1.000 tonn af stórri og fallegri loðnu sem fékkst í grænlenskri lögsögu í nótt og fyrrinótt. Að sögn Guðmundar Hafsteinssonar, stýrimanns á Víkingi, er ástandið á miðunum með ágætum. Það lóði á loðnutorfur á þó nokkuð stóru svæði en torfurnar mættu vera þéttari.

,,Við erum staddir um 127 sjómílur norður af Hornbjargi og til Vopnafjarðar er um 250 sjómílna sigling,“ sagði Guðmundur í morgun en reiknað er með því að skipið komi til hafnar á Vopnafirði fyrir hádegi á morgun.

Víkingur fór til loðnuleitar út af Vestfjörðum um sl. helgi en úthaldið þá varð skammvinnt vegna brælu. Áður en veður versnaði varð vart við álitlegar lóðningar en enginn afli fékkst áður en skipinu var haldið til hafnar á Ísafirði þar sem þess var beðið að veðrið gengi niður. Samkvæmt veðurspánni var útlit fyrir að vel gæti viðrað til nótaveiða þegar liði á vikuna og gekk það eftir. Víkingur fór að nýju til veiða á fimmtudag og á aðfararnótt föstudagsins fengust um 500 tonn af loðnu í fjórum köstum. Skipið var þá statt á um 68°34´N og 23°07V. Liðna nótt fengust svo 500 tonn til viðbótar og í morgun var stefnan svo sett á Vopnafjörð.

Að sögn Guðmundar hefur loðnan haldið sig allt frá yfirborði og niður á um 100 faðma dýpi á nóttunni en á daginn hefur hún dýpkað á sér en þó verið veiðanleg. Sem fyrr segir er loðnan væn eða um 42 stykki í kílói að jafnaði. Það mun ráðast af gæðum loðnunnar við löndun hvernig aflanum verður ráðstafað.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir