FréttirSkrá á póstlista

04.10.2011

Kolmunnakvótinn gæti tífaldast milli ára

Gangi tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) varðandi ráðlagðan heildarafla á norsk-íslenskri síld og kolmunna eftir á næsta ári munu rúmlega 17.000 tonn af síld og rúmlega 14.400 tonn af kolmunna koma í hlut uppsjávarskipa HB Granda. Þetta samsvarar því að aflamark í norsk-íslensku síldinni lækki um tæplega 3.400 tonn á milli ára en mikil aukning verður á kolmunnakvótanum sem fara mun úr tæpum 1.400 tonnum í rúmlega 14.400 tonn.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir að ráðgjöfin varðandi norsk-íslensku síldina sé ákveðin vonbrigði þar sem að jákvæðar fréttir hafi borist af ástandi stofnsins í vor og sumar sem leið. Hins vegar sé það ánægjuefni að ekki hafi verið jafn illa komið fyrir kolmunnastofninum og ICES hefur áður haldið fram og samkvæmt upplýsingum frá ráðinu sé ljóst að stofninn hafi verið vanmetinn í mælingum í fyrra.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun kemur fram að árgangar norsk-íslensku síldarinnar frá 1998, 1999 og 2002-2004 hafi allir verið stórir, sem leitt hafi til þess að hrygningarstofninn fór vaxandi frá árinu 2003 og náði hámarki árið 2009. Árgangar yngri en 2004 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn munu minnka á næstu árum. Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn árið 2011 talinn vera um 8 milljónir tonna eða 2 milljónum tonnum minni en á árinu 2009.

Um kolmunnann segir að rannsóknir á árinu 2010 hafi ekki náð yfir allt úbreiðslusvæði kolmunnans og því hafi verið ákveðið að sleppa því ári við mat á stofnstærðinni. Hrygningarstofninn nú sé áætlaður um 2,4 milljónir tonna. Aflamark fyrir 2012 verður 391 þúsund tonn, samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum. Þar af er hlutdeild Íslendinga um 69 þúsund tonn (17,6%). Til samanburðar var aflamark fyrir árið 2011 um 40 þúsund tonn og hlutur Íslendinga 7 þúsund tonn.

Í ráðgjöf ICES varðandi makrílkvóta næsta árs er lögð til lítilsháttar lækkun á aflamarki næsta árs eða 586 til 639 þúsund tonn í stað 592 til 646 þúsund tonn sem var ráðgjöf ráðsins vegna veiðanna í ár. Áætlaður heildarafli í ár verður þó mun meiri eða allt að 930 þúsund tonn og þar af ákváðu íslensk stjórnvöld að heimila íslenskum skipum veiðar á um 155 þúsund tonnum. Afli ársins er kominn í rúmlega 155 þúsund tonn samkvæmt gögnum frá Fiskistofu.

Að sögn Vilhjálms ríkir mikil óvissa um makrílkvóta næsta árs. Verið er að freista þess að ná samkomulagi um skiptingu kvótans á milli strandríkja, sem rétt eiga á veiðum úr stofninum en takist samkomulag ekki þá er það í höndum sjávarútvegsráðherra að ákveða aflamark næsta árs.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir