FréttirSkrá á póstlista

14.09.2011

Meira en tvöföldun á vinnslu makríls til manneldis

Vinnsla og frysting á makrílafurðum til manneldis hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði hefur meira en tvöfaldast nú á vertíðinni í samanburði við vertíðina í fyrra. Búið er að frysta alls tæplega 11.000 tonn af makrílafurðum á Vopnafirði en alla vertíðina í fyrra nam magnið tæplega 5.000 tonnum.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, er mjög ánægður með ganginn í vinnslunni í sumar og hann segir að allt hafi gengið hnökralaust fyrir sig.

,,Líkt og ég hef nefnt áður þá skipti það sköpum fyrir okkur við makrílvinnsluna að fá nýja blásturfrystinn fyrir vertíðina og sú fjárfesting hefur svo sannlega skilað sér í sumar,“ segir Magnús en án blástursfrystisins hefði ekki verið hægt að vinna stærsta makrílinn til manneldis. Kemur þar hvort tveggja til að flökunarvélarnar ráða illa við stærsta fiskinn og hann er sömuleiðis of stór fyrir pönnurnar sem afurðirnar eru settar í áður en þær fara í frystingu í plötufrystum.

Alls er búið að frysta rúmlega 15.000 tonn af síldar- og makrílafurðum hjá HB Granda á Vopnafirði í sumar og í haust. Áhersla var lögð á makrílveiðar í sumar en nú eru skipin að síldveiðum og mikið af stórri og góðri síld hafa borist vinnslunni undanfarna daga. Faxi RE er í höfn á Vopnafirði og verður lokið við að vinna afla úr skipinu nú síðdegis. Von er á Lundey NS til hafnar með um 530 tonna afla um kl. 16 í dag og að sögn Magnúsar er meðalvigtin á síldinni í afla skipsins áætluð vera um 390 grömm. Ingunn AK er á miðunum á Héraðsflóadjúpi en skipið mun hefja partrollsveiðar með Faxa um leið og hann kemur á miðin.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir