FréttirSkrá á póstlista

13.09.2011

Síldveiðar með partrolli ganga mjög vel

Nú er kominn sá árstími að vænlegast þykir til árangurs á síldveiðunum að tvö skip veiði saman með einu, stóru flottrolli. Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni AK, ganga veiðarnar mjög vel og hið sama má segja um vinnsluna á Vopnafirði sem nú hefur úr nægu hráefni að moða eftir bræluna sem torveldaði skipunum veiðar í lok síðustu viku.

,,Við erum núna að toga með Faxa RE en við leystum Lundey NS af hólmi sem nú er á Vopnafirði með góðan afla,“ segir Guðlaugur en er við náðum tali af honum voru Ingunn og Faxi að veiðum í Héraðsflóadjúpinu. Frá miðunum til hafnar á Vopnafirði er ekki nema sex til átta tíma sigling og því þarf að stýra veiðunum þannig að aflamagnið henti vinnslugetu uppsjávarfrystihússins á Vopnafirði.

Að sögn Guðlaugs er það reynsla manna að heppilegra sé að tvö skip séu saman með stórt partroll á síldveiðunum þegar það kemur fram á haustið. Síldin sé stygg og því náist betri árangur með partrollinu en ef skipin væru að toga hvert með sínu trolli. Hann segir sömuleiðis að ástandið á síldinni sé gott. Hún sé stór og algeng meðalþyngd sé 380 til 410 grömm. Hægt er að veiða allan daginn en veiðin sé að jafnaði best á kvöldin og fram á nóttina. Lítið er um makríl í aflanum en til marks um það má nefna að af um 625 tonna afla, sem Ingunn kom með til Vopnafjarðar í gær og nú er verið að vinna, voru aðeins um 25 tonn af makríl.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir