FréttirSkrá á póstlista

08.09.2011

Byrjunarkvóti skipa HB Granda verður tæp 34.000 tonn

Gefinn hefur verið út byrjunarkvóti til íslenskra skipa á komandi loðnuvertíð og nemur hann181.269 tonnum. Hlutur skipa HB Granda í byrjunarkvótanum er tæplega 34.000 tonn og að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er stefnt að því að Víkingur AK fari til veiða í byrjun vertíðarinnar sem hefjast má þann 1. október nk.

,,Það fer reyndar allt eftir því hvað aðstæður leyfa en hafís gæti torveldað veiðar skipanna á þessum árstíma á veiðisvæðinu norðan Vestfjarða,“ segir Vilhjálmur.

Við ákvörðun sjávarútvegsráðherra er byggt á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en mat hennar er að upphafskvóti á loðnuvertíðinni verði 732.000 tonn. Byrjunarkvótinn nú er reiknaður út frá helmingi af ráðlögðum upphafskvóta og skiptast aflaheimildarnar á milli þeirra þjóða sem rétt eiga til veiða úr loðnustofninum. Verði engin breyting á upphafskvótanum og nýting veiðiheimilda verði með svipuðum hætti og á síðustu vertíð má búast við því að um hálf milljón tonna af loðnu komi í hlut Íslendinga á komandi vertíð. Áætlað er að heildarverðmæti þess aflamagns úr sjó gæti numið 20 til 30 milljörðum króna.

Skip HB Granda veiddu alls um 61.000 tonn af loðnu á síðustu vertíð. Þá námu loðnuheimildir innan lögsögunnar samtals 325 þúsund tonnum en þar af fóru um 73 þúsund tonn til erlendra skipa samkvæmt millirikjasamningum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir